Home / Fréttir / Macron áréttar óvissu um hvort vestrænt herlið fari inn í Úkraínu

Macron áréttar óvissu um hvort vestrænt herlið fari inn í Úkraínu

Emmanuel Macron og Olaf Scholz.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Olaf Scholz Þýskalandskanslari og Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, hittast í Berlín föstudaginn 15. mars til að ræða stuðning við Úkraínustjórn í stríðinu við Rússa.

Ágreiningur er innan þýsku ríkisstjórnarinnar um hvernig þessum stuðningi skuli háttað. Þá hafa Macron og Scholz ekki verið samstiga. Talið er ólíklegt að Tusk takist að fá þá til að stilla saman strengi með Pólverjum, einörðustu stuðningsmönnum Úkraínu.

Ríkin þrjú kenna samstarf sitt við þýsku borgina Weimar og er talað um Weimar-þríhyrninginn þegar fulltrúar þeirra hittast en þeir koma frá þremur fjölmennustu ríkjum ESB.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti ítrekaði þá skoðun sína fimmtudaginn 14. mars að til þess kynni að koma að Frakkar sendu herlið til Úkraínu. Hann sat í 30 mínútur fyrir svörum í sjónvarpi og sagði enn á ný að tilvist Frakklands væri ógnað af stríðinu í Úkraínu.

„Sigri Rússar breytist líf frönsku þjóðarinnar,“ sagði Macron. „Það ríkti ekki lengur öryggi í Evrópu.

Markmið viðtalsins var að breyta viðhorfi fransks almennings til öryggismála og vekja hann til umhugsunar um að ekki væri allt sem sýndist á þeim vettvangi. Í upphafi báðu fréttamenn frá sjónvarpsstöðvunum TF1 og France 2 að skýra orð sín frá í febrúar um að hann vildi ekki útiloka að vestrænt herlið yrði sent til Úkraínu.

Innan og utan Frakklands hneyksluðust margir á þessum ummælum forsetans og sáu forystumenn Bandaríkjanna, Bretlands og Þýskalands að taka af skarið um að þeir ætluðu ekki að senda herlið til Úkraínu.

Svar Macrons var á þá leið að skilgreindu menn einhver ytri mörk á svörum sínum við aðgerðum Moskvumanna „kysu þeir ósigur“. Franski forsetinn notaði mikinn tíma í viðtalinu til að færa rök fyrir nauðsyn þess að slá engu föstu, sagði aðeins að Frakkar mundu ekki „leiða gagnsóknina eða taka frumkvæðið“.

„Það er best að ég kveði ekki skýrt að orði,“ sagði Macron.

Forsetinn var einnig spurður um hvernig samband hans væri núna við Púrtin, sagði Macron ekki hafa talað við hann í marga mánuði og tók sérstaklega fram að ekki ætti að líta á stríðið sem persónulegt mál.

„Þetta er hvorki skáldsaga né sápuópera. Nú þegar við tölum hér saman deyja karlar og konur í Úkraínu á vakt Pútins forseta,“ sagði Macron.

Franska þingið samþykkti fyrr í vikunni öryggissamning sem áréttar stuðning Frakka við umsókn Úkraínu um aðild að NATO og felur í sér skuldbindingu um fjárhagslegan og hernaðarlegan stuðning við stjórnina í Kyív.

Franskur almenningur er ekki sömu skoðunar og Macron því að í skoðanakönnun þar sem spurt var um yfirlýsingar hans um vestrænt herlið í Úkraínu sögðu 68% að hann hefði „rangt“ fyrir sér.

Erwan Lestrohan hjá könnunarstofnuninni Odoxa sagði við POLITICO að meirihluti Frakka hefði áhyggjur af því að gera öflugt ríki eins og Rússland að andstæðingi.

Heimild: The Spectator

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …