Home / Fréttir / Macron áréttar fyrirheit um að verða við óskum um herlið til Úkraínu

Macron áréttar fyrirheit um að verða við óskum um herlið til Úkraínu

Emmanuel Macron Frakklandsforseti heitir því að senda herafla til Úkraínu brjótist rússneski herinn í gegnum fremstu víglínuna og beiðni berist frá Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta um aðstoð.

Þetta segir hann í samtali við The Ecomomist sem birtist fimmtudaginn 2. maí. Telur Frakklandsforseti að beiðni um aðstoð frá Volodymyr Zelenskíj forseta með stuðningi réttra yfirvalda í Kyív tryggi lögmæti þess að senda her til aðstoðar Úkraínu.

The Economist segir að Macron hafi veitt viðtalið eftir að hann flutti stefnumótandi ræðu í Sorbonne-háskóla 25. apríl þar sem hann sagði Evrópu „dauðlega“ og ógn Rússa í hennar garð eftir innrásina þeirra í Úkraínu í febrúar 2022 gæti átt hlutdeild í dauða hennar.

Rússar sækja nú fram af miklum þunga í austurhluta Donetsk-héraðs í von um að ná sem mestu svæði undir sig áður en skotfæralitlir hermenn Úkraínu fá vopn að nýju með aðstoð Bandaríkjamanna.

„Ég útiloka ekki neitt, við stöndum andspænis aðila sem útilokar ekki neitt,“ segir Macron þegar hann er spurður um hvort hann haldi fast við fyrri ummæli sín um að ekki eigi að útiloka að vestrænir hermenn verði sendir til Úkraínu. Ummælin vöktu óttablandna undrun í Evrópu og víðar þegar þau féllu.

Yrði þetta gert kæmi til átaka milli herja undir merkjum NATO og rússneska hersins. Margir óttast að það yrði til að stigmagna átökin.

Nú telja ýmsir greinendur að litlu muni að Rússar hefji nýja stórárás í Úkraínu.

Macron segir að ákveði Rússar að ganga lengra þurfi vestrænir ráðamenn að  spyrja sjálfa sig hvort sem er hvort bregðast eigi við með því að senda herafla á vettvang. Hann segir að afstaða sín að hafna ekki að það verði gert sé til þess fallin að vekja stjórnendur samstarfsþjóða sinna til umhugsunar um strategísk viðbrögð.

Hann segir að Rússar „grafi undan svæðisbundnum stöðugleika“ og „ógni öryggi Evrópu“.

„Ég hef skýrt strategískt markmið: Rússar geta ekki sigrað í Úkraínu,“ segir Macron. „Sigri Rússar í Úkraínu, ríkir öryggisleysi í Evrópu. Hver getur fullyrt að Rússar stöðvi þarna? Hvernig verður öryggi nágrannaríkjanna háttað: Moldóvu, Rúmeníu, Póllands, Litháens og annarra?“

Viðtalið við Macron birtist sama dag og varnarmálaráðuneytið í Moskvu tilkynnti að hermenn þess hefðu að fullu frelsað Berdytsjí-byggðarlagið.

Stjórnin í Kyív sagði að liðsmenn sínir hefðu hörfað þaðan um helgina. Um er að ræða svæði fyrir norðvestan bæinn Avdiivka sem Rússar náðu í febrúar.

Herfræðinga greinir á um hvort lýsa eigi árangri rússneska hersins undanfarna mánuði sem sókn af hans hálfu eða tala um „virk varnarviðbrögð“ þar sem heildarstaða herjanna breytist lítið sem ekkert við þetta.

Oleksandr Syrskyi, yfirhershöfðingi Úkraínu, sagði sunnudaginn 28. apríl að vígstaðan í austri hefði versnað undanfarið og liðsmenn hans hefðu orðið að hörfa á þremur stöðum.

Frá 1. júní til 1. október 2023 tapaði rússneski herinn ráðum yfir 414.26 ferkílómetra svæði. Frá 1. janúar til 2. maí 2024 hefur rússneski herinn náð undir sig 432,2 ferkílómetrum, mest í Donetsk-héraði, segir Pasi Paroinen,

greinandi hjá Black Bird Group, finnskum hópi sjálfboðaliða sem rannsakar gervitunglamyndir og efni á samfélagssíðum til að draga upp mynd af gangi stríðsins.

Rússneski herinn beitir nú öllum kröftum til að ná hernaðarlega mikilvæga bænum Tsjavik Jar, skammt fyrir vestan Bakhmut, undir sig. Telja embættismenn Úkraínu að Rússar vilji ná bænum fyrir 9. maí, sigurdag Rússa í annarri heimsstyrjöldinni. Frá bænum má skjóta með stórskotaliðsvopnum á stærstu bæi í Donetsk-héraði þar sem Rússar hafa búið um sig.

 

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …