Home / Fréttir / Macron á ESB-þinginu: Vaxandi hrifning á ófrjálslyndi minnir á borgarastríð

Macron á ESB-þinginu: Vaxandi hrifning á ófrjálslyndi minnir á borgarastríð

Emmanuel Macron flytur ræðu á ESB-þinginu.
Emmanuel Macron flytur ræðu á ESB-þinginu.

Nú þegar um eitt ár er liðið frá því að Emmanuel Macron (40 ára) var kjörinn forseti Frakklands flutti hann í fyrsta sinn ræðu á ESB-þinginu þar sem hann hvatti til öflugra umbóta og opinna viðræðna við Evrópubúa. Hann sagðist ekki vilja vera hluti af kynslóð svefngengla sem hefði gleymt eign fortíð. Forsetinn sagði að ágreiningurinn í Evrópu  minnti á „borgarastríð … þar sem gætir vaxandi hrifningar á ófrjálslyndi“.

Forsetinn flutti ræðu sína þriðjudaginn 17. apríl í ESB-þinghúsinu í Strassborg og hvatti þar til þess að þingmenn stofnuðu til „raunverulegra skoðanaskipta um skoðanir og tillögur “ og blésu þannig „lífi í lýðræði innan ESB“. Í maí 2019 verður kjörið næst til þingsins og mun baráttan vegna kosninganna setja svip á þingstörfin næstu mánuði.

Fréttamenn segja að ræða Macrons hafi verið tilfinningaþrungin á köflum, hann hafi meðal annars viljað fullvissa þingmennina um að Evrópumenn hefðu ekki „kastað Evrópu [les ESB] fyrir róða“.

Hann hvatti til umræðna um fólksflutninga, vegvísi í evru-umbótum, breytingar á bankakerfinu og fullveldi ESB í heild sem yrði við hlið fullveldis einstakra aðildarríkja.

„Við höfum þörf fyrir ESB-fullveldi til að vernda borgara okkar með varnar- og öryggisaðgerðum inn á við og út ávið,“ sagði Frakklandsforseti.

Macron lýsti lýðræði og einhug innan ESB sem „djásni“. Hann lagði einnig til að gerð yrði áætlun um að „veita beinan fjárhagslegan stuðning til sveitarfélaga sem taka flóttamönnum fagnandi og aðlaga þá“.

Frakklandsforseti vakti máls á auknum popúlisma innan ESB, hann hefði birst nýlega í þingkosningum á Ítalíu og í Ungverjalandi. Vegna örra breytinga á líðandi stundu yrðu stjórnmálamenn að breyta háttum sínum en í því mætti ekki felast höfnun á lýðræði. Macron sagði:

„Á þessum erfiðum tímum veitir evrópskt lýðræði okkur í raun best besta tækifærið. Verstu hugsanlegu mistökin fælust í því að hverfa frá kerfi okkar og sérkennum.

Þjóðernishyggja leiðir Evrópu í ógöngur. Við sjáum forræðishyggju aukast allt í kringum okkur, svarið  felst ekki forræðis-lýðræði heldur lýðræðislegu forræði.“

Macron gagnrýndi þá tilhneigingu  að skella skuldinni vegna vandræða heima fyrir á Brusselmenn.

Frakklandsforseti harmaði stækkandi gjá milli ESB og þess sem hampað væri af Bandaríkjastjórn. Hann sagði Evrópumenn og Bandaríkjamenn eiga margt sameiginlegt en Bandaríkjamenn höfnuðu á hinn bóginn fjölþjóðaaðgerðum, frjálsum viðskiptum og loftslagsbreytingum

Emmanuel Macron á fund með Angelu Merkel Þýskalandskanslara í Berlín fimmtudaginn 19. apríl í Berlín. Þau hafa heitið því að stilla saman strengi og leggja fram ESB-umbótatillögur á leiðtogaráðsfundi sambandsins í júní. Þriðjudaginn 24. apríl verður Macron opinber gestur Donalds Trumps forseta í Washington.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …