Home / Fréttir / Lykilvitni breytir framburði Trump í óhag

Lykilvitni breytir framburði Trump í óhag

Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart ESB.
Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart ESB.

 

Lykilvitni í rannsókn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á því hvort ákæra beri Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur breytt framburði sínum forsetanum í óhag. Um er að ræða Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart ESB.

Hann viðurkenndi fyrir rannsakendum málsins að hann hefði sagt háttsettum embættismanni í Úkraínu að stjórnvöld þar fengju ekki hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum nema yfirvöld lýstu vilja til að efna til þeirra rannsókna sem Trump vildi að færu fram.

Rannsóknirnar sneru meðal annars að Hunter, syni Joes Bidens, sem nú er talinn sigurstranglegastur demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum að ári. Trump og stuðningsmenn hans telja Joe Biden hafa misnotað aðstöðu sína sem varaforseti Bandaríkjanna í forsetatíð Baracks Obama til að skara eld að eigin köku, fjölskyldu sinnar og vina.

Þessi afstaða Sondlands kemur fram í fjögurra blaðsíðna yfirlýsingu sem er eiðsvarin og birtist þriðjudaginn 5. nóvember. Það sem segir í yfirlýsingunni er andstætt því sem Sondland sagði rannsakendum í október. Þá sagðist hann „aldrei“ hafa talið að aðstoð við Úkraínustjórn væri háð skilyrðum. Yfirlýsing Sondlands sem er pólitískur stuðningsmaður Trumps og í beinum samskiptum við hann skiptir miklu fyrir demókrata því að hún styður fullyrðingar þeirra um valdníðslu forsetans.

„Ég sagði [við úkraínska embættismanninn] að líklega yrði enga aðstoð að fá frá Bandaríkjunum fyrr en Úkraínumenn birtu yfirlýsinguna gegn opinberri spillingu sem við hefðum rætt í margar vikur,“ sagði Sondland.

Til að styrkja stöðu sína fer Trump þess á leit við hæstarétt að hann úrskurði um að ekki sé unnt að hefja sakamálarannsókn yfir sér á meðan hann gegnir embætti. Taki dómstóllinn málið fyrir er talið líklegt að í úrskurðinum felist mikilvæg útlistun á valdmörkum Bandaríkjaforseta.

 

Heimild: NYT.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …