Ný þýsk könnun á vegum Bertelsmann-stofnunarinnar sýnir að lýðskrum er á undanhaldi í Þýskalandi. Fylgi við flokka sem kenndir eru við lýðskrum hefur minnkað mikið undanfarin tvö ár og líklegt er að flokkur á borð við AfD verði smáflokkur á hægri væng stjórnmálanna.
Lýðskrum naut mest fylgis í þýskum stjórnmálum árið 2018 en hefur minnkað síðan samkvæmt könnuninni sem birt var fimmtudaginn 3. september.
Talið er að um 20% skráðra kjósenda í Þýskalandi séu nú „hallir undir lýðskrum“ en þetta hlutfall var 33% árið 2018.
Bertelsmann heldur úti lýðskrums-barómeter sem hannaður var í samvinnu við YouGov Germany. Í júní 2020 voru átta lýðskrums-yfirlýsingar um þjóðfélagsmál lagðar fyrir 10.000 kjósendur og spurt hvor þeir væru sammála þeim.
Meðal annars var spurt hvort svarendur litu á stjórnmálamenn sem „spillta elítu“ sem gætti aðeins eigin hagsmuna, hvort þeir höfnuðu málamiðlunum eða styddu beint fullveldi með þjóðaratkvæðagreiðslum.
Könnunin leiðir í ljós að það eru einkum kjósendur á miðjunni sem snúa baki við lýðskrumi. Árið 2018 var þessi hluti kjósenda veikastur fyrir boðskap lýðskumara.
Í frétt þýsku DW-fréttastofunnar um könnunina segir að lýðskrum í þýskum stjórnmálum hafi undanfarin ár birst í stuðningi við flokka á borð við Alternativ für Deutschland (AfD) sem berjist gegn innflytjendum og skipi sér yst til hægri. Flokkurinn hafi tekið fylgi af kristilegum CDU/CSU og frálslyndum FDP og haft áhrif á stefnu þessara flokka.
Könnunin segir að fylgisflótti frá hefðbundnu þýsku flokkunum hafi stöðvast. Á hinn bóginn setji öfgamenn æ meiri svip á AfD.