Home / Fréttir / Lýðræðislegir stjórnarandstæðingar yfirgefa þingið í Hong Kong

Lýðræðislegir stjórnarandstæðingar yfirgefa þingið í Hong Kong

Reknir af þing Hong Kong.
Reknir af þing Hong Kong.

Lýðræðissinnaðir stjórnarandstæðingar á þingi Hong Kong sögðu miðvikudaginn 11. nóvember af sér til að mótmæla að fjórir úr þeirra hópi voru reknir af þingi eftir að stjórnvöld í Peking veittu heimastjórn borgarinnar nýja heimild til að takast á við mótmæli almennra borgara.

Fyrr þennan sama miðvikudag samþykkti þing Kína ályktun um að yfirvöld Hong Kong gætu svipt þá þingmennsku sem mæltu fyrir sjálfstæði Hong Kong, ættu í leynimakki við erlenda aðila eða ógnuðu þjóðaröryggi. Ekki þyrfti úrskurð dómara til að losna við þingmennina.

Ekki leið á löngu þar til stjórn borgarinnar tilkynnti að fjórir þingmenn væru vanhæfir til þingsetu en áður hafði þeim verið bannað að bjóða sig fram til endurkjörs. Töldu stjórnendur borgarinnar ekki unnt að treysta hollustu þingmannanna við Hong Kong.

Við þessa ákvörðun vakna enn efasemdir á Vesturlöndum um hvort kínverska stjórnin standi við skuldbindingar sínar frá 1997 þegar Bretar afhentu henni stjórn Hong Kong í trausti þess að ráðamenn í Peking fylgdu stefnunni um „eitt ríki, tvö kerfi“.

Wu Chi-Wai, fomaður Lýðræðisflokksins í Hong Kong, sagði: „Við getum ekki lengur sagt umheiminum að við búum enn við kerfið sem reist er á einu ríki, tveimur kerfum, nú hefur opinberlega verið lýst dauða þess.“ Með Wu Chi-Wai á blaðamannafundi voru allir stjórnarandstöðuþingmenn í Hong Kong og héldust í hendur. „Við gætum hags fólksins í Hong Kong,“ sagði Wu Chi-Wai.

Kínversk yfirvöld hafna fullyrðingum um að þau gangi á rétt og frelsi íbúa Hong Kong, alþjóðlegrar fjármálamiðstöðvar. Skipulega hefur hins vegar verið unnið að því af hálfu yfirvaldanna að brjóta á bak aftur hreyfinguna sem hóf aðgerðir í júní 2019 í þágu frelsis í Hong Kong.

Carrie Lam sem fer með æðstu stjórn í Hong Kong með stuðningi kínverskra stjórnvalda sagðist vilja heyra ólíkar skoðanir að 70 manna þingi borgarinnar en fara yrði að lögum. Brottreknu þingmennirnir hefðu ekki gert það.

Skrifstofa kínverskra stjórnvalda í Hong Kong sendi frá sér tilkynningu miðvikudaginn 11. nóvember um að þeir einir gætu stjórnað borginni sem sýndu Kína hollustu. Náið yrði fylgst með að staðið yrði vel að framkvæmd þeirrar reglu.

Lýðræðssinnuðu þingmennirnir stóðu frammi fyrir erfiðu vali: að sitja áfram í von um geta sýnt stjórnendum á valdi manna í Peking aðhald eða stuðningsmenn þeirra litu þannig á að þeir sættu sig við valdboðið frá Peking og snerust því gegn þeim.

Stefnt hefur í óefni fyrir lýðræðissinna og stjórnarandstæðinga í Hong Kong frá 30. júní 2020 þegar kínversk stjórnvöld lögfestu þar ný öryggislög. Þar eru refsiákvæði gegn hverjum þeim sem Kínverjar gruna um undirróður, viðskilnaðarstefnu, hryðjuverk eða leynimakk með fulltrúum erlendra ríkja – má dæma þá í lífstíðarfangelsi.

Eftir að lögin voru sett hafa yfirvöldin hreinsað bækur þar sem fjallað er um ágæti lýðræðis úr bókabúðum. Söngur í skólum og annað sem fellur yfirvöldum ekki í geð er bannað, sömu sögu er að segja um slagorð auk þess sem lögregla hefur ráðist inn á ritstjórn stjórnarandstöðublaðs.

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …