Home / Fréttir / Lýðræði andspænis starfrænni undirróðursstarfsemi

Lýðræði andspænis starfrænni undirróðursstarfsemi

presidentputin

Ríkisrekinn undirróðursstarfsemi og áróður gegn opnum lýðræðisríkjum grefur undan stöðugleika í þeim. Ríki í Evrópu hafa lengi sakað Rússa um að beita þessum brögðum þótt stjórnvöld í Moskvu hafni öllum ásökunum. Fjallað er um baráttuna gegn slíkum klækjabrögðum í nýlegri grein á CNN fréttaveitunni.

Áralöng átök

Barátta Evrópuríkja gegn undirróðursstarfsemi Rússa er ekki ný af nálinni en hún tók stakkaskiptum eftir að Rússar innlimuðu Krímskagann árið 2014 og réðust inn í austurhluta Úkraínu. Þá áttuðu ríki Evrópusambandsins (ESB) sig á því að baráttan fluttist í netheima. Evrópusambandið brást m.a. við þróuninni með því að stofna vinnuhóp árið 2015. Á ensku ber hann heitið East StratCom Task Force og er ætlað að spá fyrir um og verjast tilraunum Rússa til að grafa undan gildum ESB-ríkja, sérstaklega í austanverðri Evrópu líkt og nafnið á vinnuhópnum ber með sér.

Vinnuhópurinn er hluti af umfangsmikilli varnaráætlun ESB. Þannig setti sambandið í fyrra á fót upplýsingakerfi sem ætlað er að vara stjórnvöld í aðildarríkjunum við strax og grunur vaknar um að rússnesk áróðursherferð hafi farið af stað. Á ensku kallast kerfið Rapid Alert System. Ekki eru allir sannfærðir um að það geri nóg gagn, er bent á hraði viðbragðanna sé ekki alltaf í samræmið við heitið, kerfi skjótra viðbragða.

Í apríl 2018 kynnti ESB verklagsreglur (e. code of practise) um varnir gegn upplýsingafölsunum sem ýmsir tæknirisar skrifuðu undir. Þær urðu til þess að fyrirtækin Facebook, Twitter og Google gerðu átak til að að auka gegnsæi fréttaflutnings á miðlum sínum fyrir Evrópuþingskosningarnar í fyrra.

Í skýrslu frá ESB eftir kosningarnar kom fram að varnarviðbúnaður sambandsins virðist hafa skilað árangri. Að mati fréttamanns CNN gætu bandarísk stjórnvöld lært ýmislegt af ESB í þessum efnum.

Einstaka Evrópuríki hafa einnig aukið eigin varnir gegn falsfréttum. Þannig banna Frakkar falsfréttir í aðdraganda kosninga. Í Þýskalandi gilda lög sem heimila stjórnvöldum að sekta fjölmiðla fyrir að birta augljóslega falskar fréttir. Í Úkraínu ræða menn svipuð lög sem yrðu þó enn harðari en þau þýsku.

Ráðstefna um falsfréttir

Í grein CNN segir að 30. janúar 2020 hafi sérsveit gegn áróðri innan ESB haldið ráðstefnu í Brussel. Vera Jourová sem fer með málefni gilda og gagnsæis innan framkvæmdastjórnar ESB hélt þar fyrirlestur og sagði að engin törfalausn dygði gegn upplýsingafölsunum, falsanir væru af svo margvíslegu tagi. Nefndi Jourová ýmis ósannindi um loftslagsvá, kosningar, flóttamenn og nú síðast kórónavírusinn frá Kína. Nauðsynlegt væri því að beita fjölbreyttum vörnum gegn þessum blekkingum.

Þessi barátta er mjög dýr og segir í grein CNN að framkvæmdastjórn ESB vilji að 2,5 milljónir evra verði lagðar í stöð netmiðlaskimunar vegna upplýsingafalsana. Framkvæmdastjórnin leggur líka til að á árunum 2021 – 2027 verði 60 milljónum evra varið í að styrkja gæðafjölmiðlun. Þetta þykir Sebastian Bay, sérfræðingur hjá NATO gegn tölvuárásum og misnotkun, við öndvegissetrið Strategic Communication Centre of Exellence í Riga, Lettlandi, ekki mikið fé miðað við umfang verkefnisins. Gegn milljörðunum sem varið sé í stafrænu upplýsingakerfin vegi nokkrir tugir milljóna evra ekki þungt til að tryggja viðunandi eftirlit. Þá er þessi barátta gegn falsfréttum viðkvæm vegna virðingar fyrir tjáningarfrelsinu.

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …