
Luiz Inacio Lula da Silva, forseti Brasilíu.
Luiz Inacio Lula da Silva, forseti Brasilíu, lagði til fimmtudaginn 6. apríl að Úkraínustjórn léti af kröfum um að endurheimta Krímskaga af Rússum og þannig yrði stríðinu í Úkraínu lokið. Rússar gætu ekki vænst þess að „fá allt“.
Lula sagði á fundi með blaðamönnum í borginni Brasilíu að Vladimir Pútin Rússlandsforseti gæti ekki „hrifsað land af Úkraínumönnum. Kannski má ræða um Krím. En hann verður að íhuga önnur svæði sem hann hefur hernumið“.
Lula sagði einnig: „Zelenskíj getur ekki heldur heimtað allt. Það verður að skapast ró í heiminum. Við verðum að finna lausn.“
Í Kyív vildu menn ræða við ráðamenn í Moskvu þar til rússneski herinn ruddist inn í Úkraínu 24. febrúar 2022. Nú neitar Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti að ræða við Rússa nema þeir hverfi á brott frá Úkraínu.
Margir óttast að láti Úkraínumenn Krímskaga til Rússa ýti það aðeins undir þrá þeirra eftir meira landi og verði ekki til að ljúka neinu. Meirihluti Úkraínumanna er einnig andvígur því að Krím falli varanlega í hendur Rússa. Könnun sem Kyiv International Institute of Sociology gerði í febrúar og mars 2023 sýndi að 87% Úkraínumanna vildu ekki að eftirgjöf landsvæða yrði grunnur friðargerðar. Þá vildu 64% að reynt yrði að endurheimta allt land Úkraínu, þar með Krím „jafnvel þótt það kynni að lengja stríðið“.
Þótt margt sé óljóst varðandi áform Lula vegna stríðsins hefur hann hreyft vilja til að leita sátta milli Rússa og Úkraínumanna ásamt fulltrúum fleiri ríkja. Í næstu viku ætlar Lula að kynna Xi Jinping Kínaforseta hugmyndir sínar þegar þeir hittast í Peking.
Kínverjar hafa sjálfir lagt fram friðaráætlun sem hafnað hefur verið af Úkraínustjórn og vestrænum stuðningsríkjum hennar.
Celso Amorim, utanríkismálaráðgjafi Lula, var í Moskvu undir lok mars og hitti Pútin og Sergei Lavrov, rússneska utanríkisráðherrann. Pútin er væntanlegur til Brasilíu 17. apríl.
Ráðgjafi Zelenskíjs gaf í skyn fimmtudaginn 6. apríl að Úkraínustjórn kynni að vilja ræða framtíð Krímskaga við Rússa ef her hennar kæmist að landamærum skagans.
„Takist okkur að ná hernaðarlegum markmiðum okkar á vígvellinum og komumst við að stjórnsýslulegum mörkum Krímskaga, erum við tilbúnir að taka diplómatískt skref til að ræða málið,“ sagði Andrij Sybiha, vara-skrifstofustjóri forsetaembættis Úkraínu við The Financial Times.
Fréttaskýrandi Euronews segir óljóst hvort hugur hafi fylgt máli hjá embættismanninum eða hvort hann vildi villa um fyrir Rússum með því að gefa til kynna að yfirvofandi árás Úkraínuhers yrði í suðri.
Heimild: Euronews.