Home / Fréttir / Lukasjenko virkjar herinn og ræðir við Pútin

Lukasjenko virkjar herinn og ræðir við Pútin

Afmælissöngur og blöðrur við fangelsismúra í Minsk.
Afmælissöngur og blöðrur við fangelsismúra í Minsk.

Alexander Lukasjenko, forseti Hvíta-Rússlands, tilkynnti síðdegis þriðjudaginn 18. ágúst að hann hefði sent herlið að vestur landamærunum, gagnvart Póllandi og Litháen. Ríkisfréttastofan Belta skýrði frá þessu og jafnframt orrustuþotur gættu lofthelgi landsins.

Forsetinn gagnrýndi að andstæðingar hans hefðu komið á fót samræmingarráði og sagði að gripið yrði til gagnaðgerða gegn henni.

„Við skiljum þetta algjörlega: Þetta er tilraun til að ná völdum,“ sagði Lukasjenko.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti ræddi við Lukasjenko í síma síðdegis 18. ágúst og sagði honum frá símtölum sínum fyrr um daginn við Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Emmanuel Macron Frakklandsforseta. Þau hvöttu bæði til þess að stuðlað yrði að „ró og samtölum“ í Hvíta-Rússlandi.

Þetta var fjórða símtal þeirra Pútins og Lukasjenkos á fimm dögum, en Pútin bauð Lukasjenko hernaðaraðstoð um síðustu helgi.

Innanríkisráðuneytið í Minsk viðurkenndi að „lítill hluti“ lögregluliðs landsins hefði sagt upp eftir mótmælin hófust. Sendiherra Hvíta-Rússlands í Slóvakíu sagði af sér til að mótmæla Lukasjenko og nokkrir fleiri stjórnarerindrekar hafa einnig gert það.

Talsmaður Angelu Merkel í utanríkismálum staðfesti við DW-fréttastofuna að Þjóðverjar myndu taka að sér að miðla málum í Hvíta-Rússlandi yrði þess óskað.

Talsmaðurinn sagði augljóst að ekki hefði verið staðið rétt að kosningunum og það yrði að kjósa að nýju. Best væri að ESB yrði sáttasemjari en yrði beðið um aðild þýskra stjórnmálamanna yrðu þeir við kallinu.

Að morgni þriðjudags 18. ágúst lagði Angela Merkel áherslu á að Lukasjenko yrði að stíga skref í átt til viðræðna við stjórnarandstöðuna „til að náð yrði tökum á krísunni“.

Lét Merkel þessi orð falla í símtali við Vladimir Pútin. Lagði kanslarinn áherslu á að stjórnin í Minsk yrði að binda enda á ofbeldi gagnvart friðsömum mótmælendum, sleppa tafarlaust öllum pólitískum föngum og hefja samtal við stjórnarandstæðinga og samfélagið allt.

Í yfirlýsingu frá Kreml sagði að Pútin hefði varað Merkel við að öll erlend íhlutun í málefni Hvíta-Rússlands, fyrrverandi Sovétlýðveldis, væri óviðunandi og kynni að magna spennu í landinu.

Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, ræddi við Pútín um málefni Hvíta-Rússlands nokkrum klukkustundum eftir símtal Merkels við Pútin. Michel sagði á Twitter eftir að hafa heyrt hljóðið í Pútin: „Það verður aðeins fundin lausn á krísunni í Hvíta-Rússlandi með friðsömum samtölum með þátttöku allra viðkomandi.“

Mótmælendur komu saman við fangelsi í Minsk þar sem eiginmaður Svetlönu Tsikhanouskaju er í haldi. Hún bauð sig fram gegn Lukasjenko í forsetakosningunum 9. ágúst eftir að maður hennar. Siarhei, hafði verið handtekinn. Hann á 42 ára afmæli 18. ágúst og söng mannfjöldinn afmælissönginn við fangelsismúrana.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …