Home / Fréttir / Lukasjenkó vill komast í hafnir í Múrmansk og Arkhangelsk

Lukasjenkó vill komast í hafnir í Múrmansk og Arkhangelsk

Aleksander Lukasjenko og Vladimir Pútin í St. Pétursborg janúar 2024.

Aleksander Lukasjenkó, einræðisherra í Belarús, er nánasti bandamaður Vladimirs Pútins Rússlandsforseta og sá þjóðhöfðingi sem oftast heimsækir Rússland.

Hann fór nú í vikunni til St. Pétursborgar og tók þátt í minningarathöfn um Leníngrad-umsátrið 1941-1944 og sat fund með Pútin í sameiginlegu ríkisráði sem þeir hafa myndað. Lukasjenkó vill auka samlögun ríkis síns að Rússneska sambandsríkinu.  Nú hvetur hann til þess að ráðist verði í framkvæmdir sem geri Belarússum kleift að nota rússneskar hafnir til útflutnings.

Í því sambandi leggur hann áherslu á flutningsgeta rússnesku Október-járnbrautarinnar verði aukin til að Belarússar geti nýtt höfnina í St. Pétursborg betur sem flutningahöfn. Þá vill hann einnig fá afnot af höfnunum í Múrmansk og Arkhangelsk.

Fulltrúar stjórnvalda í Belarús hafa átt marga fundi með héraðsstjórum og fulltrúum fyrirtækja í hafnarborgunum tveimur við Norður-Íshaf.

Vegna stjórnarhátta sinna og ofríkis hafa Eystrasaltslöndin lokað á flutninga til og frá Belarús um hafnir sínar. Lukasjenko er því nauðugur einn kostur að snúa sér til Rússa enda er Belarús landlukt.

Hann gerir sér vonir um að nota megi sigliningaleiðina fyrir norðan Rússland til að flytja varning frá Norður-Íshafshöfnunum til Kína og Kyrrahafslanda.

Fram hefur komið að í viðræðum við ráðamenn í Múrmansk hafi fulltrúar Belarús lýst áhuga á að nota höfnina þar til að flytja úr áburð.

Samlögun Belarús að Rússneska sambandsríkinu komst í alvöru á dagskrá eftir að Pútin hjálpaði Lukasjenko að halda völdum og berja niður uppreisn almennings í Belarús gegn harðstjórn hans eftir svik í forsetakosningum í ágúst 2020.

 

Heimild: Barents Observer

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …