Home / Fréttir / Lukasjenko segist hafa stöðvað illvirkjana í Moskvu á landamærum Belarús

Lukasjenko segist hafa stöðvað illvirkjana í Moskvu á landamærum Belarús

Vladimir Pútin og Aleksandr Lukasjenko skemmta sér. Ekki er líklegt sð nú sé Pútin hlátur í huga vegna orða Lukasjenkos.

Aleksandr Lukasjenko, forseti Belarús, er meðal nánustu bandamanna Vladimirs Pútins Rússlandsforseta. Þriðjudaginn 26. mars fullyrti Lukasjenko ýmislegt sem stangaðist á við það sem Pútin hafði sagt um ferðir þeirra sem grunaðir eru um hryðjuverkið í Crocus City Hall í Moskvu föstudaginn 22. mars.

Forseti Belarús ræddi við belarúsíska blaðamenn og sagði að hryðjuverkamennirnir hefðu reynt að flýja til Belarús eftir að hafa unnið illvirkið.

Hann sagði þá hafa verið stöðvaða við vegatálma Belarús við rússnesku landamærin.

„Þess vegna komust þeir ekki inn í Belarús,“ hafði opinbera fréttastofan BelTA eftir forsetanum. „Þá sneru þeir við og héldu inn á svæði við landamæri Úkraínu og Rússlands.“

Lukasjenko skýrði einnig frá því að hann og Pútin hefðu samhæft aðgerðir við landamærin þegar ljóst varð að ódæðismennirnir væru á leið til Belarús.

„Hvorki Pútin né ég sváfum nokkuð í heilan sólarhring. Það voru stöðug samskipti,“ sagði forseti Belarús.

Vestrænir blaðamenn segjast ekki vita hvort Lukasjenko sé að segja satt en orð hans stangist augljóslega á við lýsingar Pútins á því sem gerðist. Hann sagði í sjónvarpsávarpi laugardaginn 23. mars, 19 klukkustundum eftir að hryðjuverkið var unnið, að Úkraínumenn hefðu opnað „glugga“ á landamærum sínum til að hleypa hryðjuverkamönnunum inn í land sitt. Lukasjenko segir hins vegar að mennirnir hafi reynt að komast inn í Belarús.

Í opinberri frásögn Kremlverja voru grunuðu mennirnir handteknir í Brjansk-héraði sem liggur að Belarús og Úkraínu.

Þá hafa Pútin og Kremlverjar nú viðurkennt að íslamskir öfgamenn hafi staðið að hryðjuverkinu. Þegar Dmitríj Peskov, talsmaður Pútins, var spurður hvernig stæði á því að gyðingurinn Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti opnaði landamæri sín fyrir íslömskum öfgamönnum var svarið: „Jú, hann er dálítið sérstakur gyðingur.“

Aleksandr Bortnikov, yfirmaður öryggislögreglu Rússlands (FSB), fullyrti þriðjudaginn 26. mars að Úkraínumenn hefðu „búist við“ að ódæðismennirnir kæmu til lands síns eftir verknaðinn.

„Ég skal segja ykkur smá leyndarmál: Það átti að hylla þá sem hetjur þarna hinum megin,“ sagði Bortnikov að sögn rússneska miðilsins RIA.

Hann sagði einnig að Bandaríkjamenn, Bretar og Úkraínumenn stæðu að baki árásinni á tónleikasalinn í Crocus City Hall þar sem 139 voru drepnir. Úkraínustjórn mótmælir þessum ásökunum harðlega og vestrænar leyniþjónustur segja Ríki íslams hafa skipulagt árásina.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …