
Alexander Lukasjenko, forseti Hvíta-Rússlands, efndi til útifundar með stuðningsmönnum sínum sunnudaginn 16. ágúst og sakaði NATO um að senda skriðdreka og flugvélar að vestur landamærum Hvíta-Rússlands. Hann hafnaði kröfum um að forsetakosningar yrðu endurteknar og hvatti þjóðina til að verja land sitt.
„Ég boðaði ykkur ekki hingað til að verja mig heldur í fyrsta sinn á aldarfjórðungi til að verja land ykkar og sjálfstæði,“ sagði forsetinn.
NATO sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að af hálfu bandalagsins væri náið fylgst með framvindu mála í Hvíta-Rússlandi en hafnaði fullyrðingum um aukin hernaðarumsvif í austurhluta Evrópu.
„Fjölþjóðlegur herafli NATO í austurhluta bandalagsins ógnar ekki neinu landi. Hann gegnir aðeins varnarhlutverki og er ætlað að koma í veg fyrir átök og varðveita frið,“ sagði í yfirlýsingunni.
Yfirkjörstjórn Hvíta-Rússlands lýsti Lukasjenko sigurvegara í kosningum í landinu sunnudaginn 9. ágúst með 80% atkvæða en réttmæti þess hefur verið dregið í efa síðan og er kjörstjórnin sökuð um svindl. Sami formaður hefur stjórnað henni frá því að Lukasjenko var fyrst kjörinn forseti fyrir 26 árum.
Daglega hefur verið efnt til mótmæla gegn forseta Hvíta-Rússlands frá kjördegi, sunnudaginn 16. ágúst sóttu mun fleiri fund mótmælenda og frelsisgöngu þeirra í Minsk en stuðningsmannafund forsetans.
Lukasjenko segir að erlend öfl standi að baki mótmælunum. „Við munum farast sem ríki, samfélag og þjóð,“ sagði Lukasjenko ef þjóðin stæði ekki með sér gegn þessum öflum.
„Ættjörðinni er ógnað!“ sagði einn ræðumanna á fundi Lukasjenkos og fólkið hrópaði „Við erum einhuga!“ og veifaði þjóðfánanum.
Alla Georgievna (68 ára) sagði við Reuters-fréttastofuna: „Ég stend með Lukasjenko. Ég skil ekki hvers vegna allir hafa snúist gegn honum. Við fáum eftirlaun og laun greidd á réttum tíma, þökk sé honum.“
Fyrir fundina í Minsk sunnudaginn 16. ágúst sögðust Rússar hafa boðið Hvít-Rússum hernaðaraðstoð væri hennar þörf. Þá var einnig fullyrt í Moskvu að erlendum þrýstingi væri beint að Hvít-Rússum án þess að tilgreina þrýstihópinn nánar.
Lukasjenko sagði ríkissjónvarpi sínu að hann mundi auka loftvarnir við vestur landamæri Hvíta-Rússlands. Þá kom einnig fram að her Hvíta-Rússlands ætlaði í skyndi að efna til æfinga alla vikuna frá 17. ágúst til að styrkja landamærin gagnvart Póllandi og Litháen.
Heimild: DW