
Þúsundir manna streyma út á götur Minsk, höfuðborgar Hvíta-Rússlands, laugardaginn 15. ágúst tæpri viku eftir að Alexander Lukasjenko var sagður sigurvegari forsetakosninga í sjötta sinn frá árinu 1994. Mótmælendur telja brögð í tafli og Lukasjenko hafi alls ekki fengið 80% atkvæða eins og segir í yfirlýsingu yfirkjörstjórnar.
Það er talið um marks um að Lukasjenko óttist mótmælendur meira og meira með hverjum deginum sem líður að laugardaginn 15. ágúst ræddi hann í síma við Vladimir Pútin Rússlandsforseta sér til trausts og halds en forsetarnir sögðust sannfærðir um innan skamms yrði óöldin í Hvíta-Rússlandi úr sögunni.
Að símtali forsetanna loknu sagði í yfirlýsingu frá Kremlarkastala, aðsetri valdhafanna í Moskvu:
„Ekki á að gefa eyðileggingaröflum færi á að nýta sér vandræðin til að skaða tvíhliða samskipti ríkjanna sem eru þeim báðum hagstæð.“
Kremlverjar segjast „sannfærðir“ um skjóta lausn á málinu.
Dag hvern frá kjördegi 9. ágúst hefur mikill mannfjöldi sýnt hug sinn á götum úti. Þúsundir manna hafa lagt blóm á minningarreit í Minsk sem helgaður er mótmælanda sem féll í átökum við lögreglu.
Lukasjenko og menn hans eru sakaðir um kosningasvindl en engum erlendum eftirlitsmönnum var veitt leyfi til að fylgjast með framkvæmd kosninganna.
Lukasjenko segir að mótmælin kunni að draga dilk á eftir sér utan landamæra Hvíta-Rússlands.
„Árásin gegn Hvíta-Rússlandi magnast. Við verðum að hafa samband við Pútin svo að ég geti talað við hann,“ sagði Lukasjenko við embættismenn sína að sögn Belta-fréttatsofunnar. „Vegna þess að þetta er ekki aðeins ógn gegn Hvíta-Rússlandi.“
Hvíta-Rússland er hlutu af „sambandsríki“ við Rússland sem er reist á samtengdu efnahagskerfi og hernaðarbandalagi.
„Vernd Hvíta-Rússlands á þessari stundu er ekki síður vernd alls svæðis okkar, sambandsríkisins, og fordæmi fyrir aðra,“ sagði Lukasjenko. „Standist Hvíta-Rússland hana ekki mun bylgjan velta þangað.“
Embættismenn í Minsk segja að tveir mótmælendur hafi fallið og tæplega 7.000 verið fangelsaðir í mótmælaaðgerðum vikunnar. Amnesty International lýsir ástandinu í Hvíta-Rússlandi á þann veg að yfirvöld landsins beiti pyntingum og hvers kyns harðræði öðru í viðleitni sinni að brjóta friðsama mótmælendur á bak aftur hvað sem það kostar.
Af hálfu Evrópusambandsins var tilkynnt föstudaginn 14. ágúst að gripið yrði til nýrra refsiaðgerða gegn embættismönnum í Hvíta-Rússlandi sem bæru ábyrgð á ofbeldisverkum stjórnvalda. ESB segir að lögregluaðgerðirnar séu úr öllu hófi og kosningarnar hafi hvorki verið frjálsar né framkvæmdar á viðunandi hátt.
Í Kreml óttast menn að bylting í Minsk leiði til svipaðs ástands eins og varð í Úkraínu þegar leppi Pútíns var ýtt úr forsetaembætti þar. Þá sýnir sagan að Pútin stendur ávallt með einræðisherrum sé að þeim vegið – hann óttist að verða næstur í röðinni.