Home / Fréttir / Lukasjenko hótar verkfallsmönnum með vopnavaldi

Lukasjenko hótar verkfallsmönnum með vopnavaldi

Að kvöldi sunnudags sást forsetinn í skotheldu vesti með Kalashnikov-hríðskotabyssu við forsetahöllina.
Að kvöldi sunnudags sást forsetinn í skotheldu vesti með Kalashnikov-hríðskotabyssu við forsetahöllina.

Meira en 100.000 manns komu saman í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, sunnudaginn 23. ágúst og kröfðust þess að Alexander Lukasjenko forseti segði af sér tveimur vikum eftir að hann var endurkjörinn í sjötta skipti. Hann er gjarnan kallaður seinasti einræðisherrann í Evrópu og brást þannig við mánudaginn 24. ágúst að hann gaf héraðsstjóra í Grodno-héraði fyrirmæli um að loka endanlega öllum verksmiðjum þar eftir að starfsmenn hófu verkföll. Hann hótaði einnig að skotið yrði á verkfallsmenn.

Andstæðingar forsetans hafa komið á fót Samræmingarráði í Hvíta-Rússlandi til að halda utan um mótmælin gegn forsetanum og við upphaf vinnuvikunnar mánudaginn 24. ágúst hvatti ráðið til verkfalla og afsagnar forsetans: „Hverja mínútu sem hann situr áfram við völd tapar þjóðarbúið stórkostlega,“ segir í yfirlýsingu ráðsins.

Grodno-hérað er í vesturhluta Hvíta-Rússlands í átt að landamærum Litháens og Póllands. Andstaða við forsetann er meiri þar en annars staðar í Hvíta-Rússlandi.

Að kvöldi sunnudags sást forsetinn í skotheldu vesti með Kalashnikov-hríðskotabyssu við forsetahöllina.

Í samtali við BBC sagði sérfræðingur í hvítrússneskum málefnum að þetta væri til marks um hræðslu forsetans. Hann óttaðist að á sig yrði ráðist og áttaði sig á að mótmælin væru svo öflug að þau yrðu ekki brotin á bak aftur með valdi.

Lukasjenko leggur áherslu á að herinn standi vörð um þjóðleg, söguleg minnismerki. Þessi fyrirmæli eru skýrð á þann veg að hann reyni að afla sér samúðar þjóðarinnar með því að árétta hve mikill þjóðernissinni hann sé, vilji koma í veg fyrir að traðkað sé á hetjulegri baráttu hennar gegn erlendri íhlutun. Á þennan veg beri einnig að skýra rangfærslur forsetans um að erlend ríki undirbúi innan NATO að ráðast inn í Hvíta-Rússland.

Til þessa hefur lögreglunni einni verið beitt gegn mótmælendum í Hvíta-Rússlandi og almenningur tekur því mjög illa að sjá hermenn gráa fyrir járnum á götum úti. Fréttamenn í Minsk segja marga efast um að herinn fylgdi fyrirmælum Lukasjenkos um að ráðast á vopnlausan almenning.

Svetlana Tsikhanouskaja sem bauð sig fram gegn Lukasjenko í forsetakosningunum og leitaði daginn eftir þær skjóls í Litháen segist vona að innan skamms tíma hefjist viðræður milli fulltrúa stjórnvalda og Samræmingarráðsins í Hvíta-Rússlandi. Engar viðræður hefjist þó fyrr en pólitískum föngum sé sleppt, segir hún við pólska blaðið Gazeta Wyborcza mánudaginn 24. ágúst.

Tsikhanouskaja hittir Stephen Biegun, vara-utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mánudaginn 24. ágúst í Litháen og ræðir við hann friðsamleg úrræði til að binda enda á deilurnar vegna forsetakosninganna 9. ágúst.

 

 

 

Skoða einnig

NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

Liselotte Odgaard er Senior Fellow, Hudson Institute, Washington, D.C. Greinin sem hér er sagt frá …