Home / Fréttir / Lukasjenko gríopur til þreytistríðs í stað ofbeldis

Lukasjenko gríopur til þreytistríðs í stað ofbeldis

Friðsöm mótmæli í Minsk.
Friðsöm mótmæli í Minsk.

Hvítrússneska lögreglan handtók um 50 manns víðs vegar í Hvíta-Rússlandi sögðu embættismenn miðvikudaginn 26. ágúst eftir að endurkjöri Alexanders Lukasjenkos forseta landsins hafði verið mótmælt í tæpar þrjár vikur. Beita yfirvöld nú aðferðum þreytistríðs gagnvart mótmælendum í stað hörkunnar í upphafi.

Lögreglan hefur fangelsað nokkra aðgerðarsinna, kallað aðra í yfirheyrslur og valið nokkra úr til að sæta ákæru fyrir dómara.

Andstæðingar forsetans mynduðu Samræmingarráð á dögunum til að skipuleggja aðgerðir sínar. Tveir félagar í ráðinu voru handteknir og dæmdir í 10 daga fangelsi.

Við þessar handtökur er ekki beitt sama lögregluofbeldi og á fyrstu dögum mótmælaaðgerðanna. Nú virðist stefna stjórnvalda að ná markmiðum sínum með sem minnstum fyrirgangi og kynna á sama tíma óljós fyrirheit um umbætur samhliða hótunum, fyrirköllum til dómara og einstaka frelsissviptingu.

Fréttaskýrendur telja að með þessu takist Lukasjenko líklega að tefja fyrir eigin afsögn en hann ýti ekki frá sér nýjum mótmælum vegna versnandi lífskjara og reiðinnar sem kraumar hjá almenningi.

„Allt bendir til að nú verði háð þreytistríð. Lukasjenko telji sér nú fært að þreyta þjóðina til uppgjafar,“ sagð dr. Nigel Gould-Davies hjá Alþjóðahermálastofnuninni í London (International Institute for Strategic Studies) við Euronews. „Það er ekki lengur unnt að tala aðeins um stjórnarandstæðinga. Um er að ræða stærsta hluta þjóðarinnar sem sameinast um friðsamlega kröfu um breytingu.“

Nigel Gould-Davies telur að Lukasjenko voni að skortur á úthaldi og þröngur fjárhagur knýi verkfallsmenn til að snúa aftur til starfa og segja skilið við þá sem krefjast breytinga. Hann segist þó ekki sjá það gerast á næstunni. Þeir sem vilji breytingar leiti að snöggum bletti á stjórnvöldum í von um að elítan sjái að hún eigi meira undir því sem gerist í framtíðinni en hollustu afdankaðan einræðisherra.

Það ýtti undir baráttuvilja mótmælenda á fyrstu dögum aðgerðanna að fréttir bárust af grimmdarverkum lögreglunnar. Hún réðst með táragasi, smásprengjum og bareflum á mannfjölda í Minsk og annars staðar. Þúsundir manna voru handteknar, hundruð særðust og að minnsta kosti þrír týndu lífi.

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …