Home / Fréttir / Lukasjenko beitir farand- og flóttafólki fyrir vagn sinn

Lukasjenko beitir farand- og flóttafólki fyrir vagn sinn

Unnið að því að styrkja vörslu landamæra Litháens.

Stjórnvöld í Litháen skýrðu frá því miðvikudaginn 28. júlí 2021 að frá áramótum hefðu rúmlega 3.000 manns komið ólöglega inn í Litháen frá Hvíta-Rússlandi. Litið er á ferðir förufólksins sem skipulega aðgerð af hálfu hvítrússneskra yfirvalda til að ná sér niðri á Litháum og þjóðum EES-svæðisins vegna andmæla stjórnvalda þessara þjóða gegn harðræði Alexanders Lukasjenkos, einræðisherra í Hvíta-Rússlandi.

Í tilkynningu Frontex, landamærastofnunar Evrópu, frá 28. júlí segir að 171 einstaklingur hafi laumast á ólögmætan hátt inn í Litháen þriðjudaginn 27. júlí. Hefur fjöldi aðkomufólksins aldrei verið meiri á einum degi á þessu ári. Frontex sagði að allir í hópnum væru frá Írak.

Alls hafa 2.366 ólöglegir aðkomumenn verið handteknir í Litháen í þessum mánuði en 473 í júní. Í fyrra var fjöldinn ólögmætra komumann 81.

Alexander Lukasjenko var endurkjörinn forseti Hvíta–Rússlands í sjötta sinn 9. ágúst 2020. Strax og úrslitin lágu fyrir hófust fjöldamótmæli í landinu og var Lukasjenko sakaður um kosningasvindl. Höfuðandstæðingur hans Svetlana Tsikhanouskaja leitaði hælis í Litháen.

Lukasjenko svífst einskis til að bæla niður andstöðu við sig. Hann neyddi meðal annars flugstjóra farþegavélar á leið frá Aþenu í Grikklandi til Vilnius í Litháen til að lenda í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, þar sem hann lét handtaka hvítrússneskan, gagnrýnan blaðamann sem síðan hefur verið pyntaður og brotinn til undirgefni.

Lukasjenko hefur hvað eftir annað hótað að senda farand- og flóttafólk inn í ESB-ríki til að hefna ákvarðana innan ESB gegn stjórn sinni.

Ylva Johansson, innanríkismálastjóri ESB, sendi miðvikudaginn 28. júlí bréf til aðildarríkja ESB um að binda verði enda á að fólk sé notað á þann hátt í pólitískum tilgangi sem við blasti á landamærum Litháens og Hvíta-Rússlands. Það yrði tafarlaust að liðsinna Litháum við landamæravörslu þeirra.

Framkvæmdastjórn ESB mundi leggja fram 12 milljónir evra til að auðvelda Litháum að taka á móti því fólki sem hefði komist ólöglega inn í land þeirra og jafnframt yrðu starfsmenn Frontex sendir sem liðsauki við landamæravörslu.

Stjórnvöld í Litháen segja að fjögur flug á viku séu á milli Minsk og Íraks og fólkið sem síðan er sent að landamærum Litháens sé flutt með þessum flugvélum. Johansson segir að ESB hafi rætt við stjórnvöld í Írak um að herða eftirlit með þessum mannflutningum og auðvelda móttöku á þeim Írökum sem vilja snúa til heimalands síns að nýju eða eiga engan rétt á alþjóðlegri vernd.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …