Home / Fréttir / Lukasjenko á allt undir Pútin

Lukasjenko á allt undir Pútin

Það var létt yfir morgunverði forseta Hvíta-Rússlands og Rússlands í Sotsji laugardaginn 29. maí. Þriðji maðurinn á myndinni er sonur forseta Hvíta-Rússlands.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti og Alexander Lukasjenko, forseti Hvíta-Rússlands, hittust til opinberra viðræðna í rússneska strandbænum Sotsji við Svartahaf föstudaginn 28. maí og til óformlegra viðræðna laugardaginn 29. maí þegar þeir fóru meðal annars í bátsferð um Svartahaf,

Lukasjenko á í vök að verjast eftir að hafa fyrir viku sent orrustuþotur í veg fyrir farþegavél á leið frá Aþenu í Grikklandi til Vilnius í Litháen og neytt flugmenn vélarinnar til að lenda í Minsk svo að handtaka mætti kunnan hvítrússneskan stjórnarandstæðing, landflótta í Litháen.

Fyrir um það bil ári andaði köldu í samskiptum forsetanna og taldi Lukasjenko að Pútin vildi segja sér of mikið fyrir verkum fyrir utan að setja óaðgengileg skilyrði fyrir orkusölu og efnahagsaðstoð til Hvíta-Rússlands. Kom meira að segja til mótmæla gegn Pútin á götu í Minsk þegar forsetarnir hittust í St. Pétursborg. Þá var Lukasjenko hvattur til að sýna staðfestu gegn yfirgangi Pútins.

Samskipti forsetanna tóku aðra stefnu eftir að Lukasjenko svindlaði í forsetakosningum 9. ágúst 2020 og hundruð þúsunda manna risu til mótmæla gegn honum á götum Minsk og annarra borga í Hvíta-Rússlandi.

Vegna mótmæla eigin borgara og mikis efnahagsvanda leitaði Lukasjenko stuðnings frá Pútin á fyrri fundi þeirra í Sotsji. Nú gerir hann það aftur vegna harðrar gagnrýni frá ríkisstjórnum Vesturlanda á opinbera flugránið.

Vandi Lukasjenkos gagnast Pútin því að nú hefur hann tækifæri til að knýja allt sitt fram gagnvart forseta Hvíta-Rússlands sem er rúinn öllu fylgi á heimavelli og alþjóðavettvangi. Velta fréttaskýrendur fyrir sér hvaða afarkosti Pútin kunni að setja Lukasjenko sem skilyrði fyrir efnahagsaðstoð og leyfi til að sitja áfram sem forseti.

Pútin veitti Lukasjenko í október 2020 500 milljón dollara lán til að bjarga efnahag Hvíta-Rússlands. Nú hefur forseti Rússlands heitið að leggja aðra 500 milljón dollara af alls 1,5 milljarða dollara láni inn á reikning Lukasjenkos.

Vladimir Pútin blæs á uppnám á Vesturlöndum vegna flugránsins sunnudaginn 23. maí og segir það ekki annað „tilfinningaæði“.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …