Home / Fréttir / London: Hryðjuverkaður á skilorði myrðir tvo vegfarendur

London: Hryðjuverkaður á skilorði myrðir tvo vegfarendur

 

Usuma Kahn
Usman Kahn

Hryðjuverkamaður, Usman Kahn (28 ára), myrti tvo almenna borgara með hnífi við London-brú (London Bridge) síðdegis föstudaginn 29. nóvember. Lögregla skaut hann til bana. Kahn hafði áður sætt dómi fyrir hryðjuverk en var látinn laus í fyrra með rafrænt ökklaband svo að fylgjast mætti með honum.

Hryðjuverkasveit bresku lögreglunnar herti rannsókn sína á málinu laugardaginn 30. nóvember. Lögreglan sætir ámæli vegna skorts á eftirliti með manninum sem var dæmdur árið 2012 fyrir aðild að tilraun til að sprengja kauphöllina í London. Þá var hann sagður hafa tengsl við öfgahópa íslamskra hryðjuverkamanna.

Neil Basu, yfirmaður gagn-hryðjuverkadeildar lögreglunnar, segir að höfuðáhersla verði lögð á að upplýsa hvernig hryðjuverkamaðurinn stóð að verki.

Honum var sleppt úr fangelsi „á skilorði“ í desember 2018. Í því fólst að hann varð að fullnægja ákveðnum skilyrðum annars yrði hann settur inn að nýju. Eitt skilyrðanna var að hann gengi með rafrænt ökklaband.

Kahn myrti karl og konu í árásinni 29. nóvember og særði þrjá aðra vegfarendur sem fluttir voru undir læknishendur á sjúkrahúsi.

Árásin var gerð um kl. 14.00 föstudaginn 29. nóvember við bygginguna Fishmongers’ Hall við norðurenda London Bridge. Maðurinn hafði tekið þátt í námskeiði fyrir fanga á vegum Cambridge-háskóla í byggingunni áður en hann greip til bitvopnsins, jafnvel áður en hann yfirgaf húsið.

Hann hafði sett á sig gervi-sprengjuvesti. Þegar nærstaddir sáu til ódæðisverka hans réðust þeir að manninum og lögðu hann til jarðar áður en lögregla kom og skaut hann til bana.

Vegna árásarinnar þurfa bresk stjórnvöld að svara erfiðum spurningum vegna þess að morðinginn átti að vera undir eftirliti lögreglunnar sem vissi um hættu af honum.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sagði föstudaginn 29. nóvember að það væru „mistök að leyfa alvarlegum og ofbeldisfullum glæpamönnum að fara snemma úr fangelsi“. Það væri mjög mikilvægt að „láta af þessari venju og að hættulegir glæpamenn sæti hæfilegri refsivist, einkum hryðjuverkamenn“.

Bretadrottning lýsti harmi sínum vegna árásarinnar, hún færði neyðarsveitum þakkir fyrir skjót viðbrögð og „hugrökkum einstaklingum“ sem hefðu stofnað eigin lífi í hættu „með óeigingjörnum viðbrögðum til að hjálpa og bjarga öðrum“.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …