Home / Fréttir / Lögreglumaður skotinn í París – forsetaframbjóðendur vilja taka harðar á öfgamönnum íslamista

Lögreglumaður skotinn í París – forsetaframbjóðendur vilja taka harðar á öfgamönnum íslamista

Lögregla lokaði Champs Elysees næturlangt.
Lögregla lokaði Champs Elysees næturlangt.

Franska lögreglan rannsakar morð á lögreglumanni að kvöldi fimmtudagsins 20. apríl á breiðgötunni Champs-Elysees í hjarta Parísar sem hryðjuverk. Þrír særðust í árásinni, tveir lögreglumenn og þýsk ferðakona áður en ódæðismaðurinn var felldur. Forsætisráðherra Frakklands hryðjuverkinu sem árás á Evrópu.

Öll umferð var stöðvuð um Champs-Elysees þar til snemma morguns föstudaginn 21.apríl.

Árásarmaðurinn er sagður hafa verið Karim Cheurfi, 39 ára. Lögregla felldi hann. Saksóknarar sem rannsaka málið höfðu síðdegis föstudaginn 21. apríl látið handtaka þrjá úr fjölskyldu Cheurfis og leiða þá til yfirheyrslu. Á blaði sem fannst nálægt árásarmanninum var borið lof á Daesh (Ríki íslams) og Cheurfi lýst sem „vígamanni“ samtakanna. Daesh hafði áður lýst skotárásinni á hendur sér.

Nokkrum klukkustundum eftir ódæðið í París gaf maður sig fram við lögregluna í Antwerpen í Belgíu. Belgíska lögreglan hafði sent frönsku lögreglunni boð um að þessi maður kynni að tengjast skotárásinni.

Yfirvöld komust síðan að þeirri niðurstöðu að ekkert samband væri milli Cheurfis og mannsins í Antwerpen.

Öryggisráð frönsku ríkisstjórnarinnar kom saman til fundar að morgni föstudags 21. apríl. Bernard Cazeneuve forsætisráðherra sagði eftir fundinn: „Af grimmd og hugleysi var gerð árás í París í gærkvöldi á sama hátt og gerðar hafa verið árásir annars staðar í Evrópu – í Berlín, Stokkhólmi, London. Öll Evrópa er skotmark vegna þess að þar er að finna gildi og hugsjónir friðar.“

Gengið verður til forsetakosninga í Frakklandi sunnudaginn 23. apríl. Forsætisráðherrann sagði að yfir 50.000 lögreglumenn hefðu verið kallaðir til starfa til að tryggja öryggi á kjördag. Þá verða einnig um 7.000 hermenn á vakt.

Forsetaframbjóðendurnir 11 voru í sjónvarpsumræðum skömmu fyrir kl. 21.00 að frönskum tíma fimmtudaginn 20. apríl þegar skotið var á lögregluþjónana.

Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar, hvatti ríkisstjórnina til að reka tafarlaust þá útlendinga úr landi sem hefðu sætt eftirliti öryggislögreglunnar. Hún hafði haft afskipti af Karim Cheurfi vegna gruns um að hann ætlaði að ráðast á lögregluna.

„Við verðum að loka landamærum okkar,“ sagði Le Pen og sagði Daesh hafa „lýst yfir stríði“ gegn Frökkum.

Cazeneuve forsætisráðherra andmælti Le Pen og sagði hana reyna að nýta sér „án þess að skammast sín“ skotárásina til að ná í atkvæði og valda sundrung meðal þjóðarinnar. Hann sagði ekkert benda til þess að skotárásin tengdist innflytjendum á nokkurn hátt.

Francois Fillon, frambjóðandi mið-hægrimanna, sagði að forgangsverkefni næsta Frakklandsforseta ætti að vera barátta gegn „alræðisstefnu íslamista“. Hann sagði: „Ég ætla að berjast með járnhnefa.“ Þá ætlar hann að viðhalda neyðarlögum í Frakklandi.

Fillon hét því einnig að gera erlenda íslamíska bókstafstrúarmenn brottræka og leysa upp samtök Salafista og Bræðralag múslima.

„Ég mun leita til Washington og Moskvu í því skyni að koma á fót alþjóðlegu samstarfi gegn hryðjuverkum íslamista,“ sagði Fillon.

Mið-vinstrimaðurinn Emmanuel Macron sem sumir telja líklegt að komist í aðra umferð forsetakosninganna sagði að kjósendur ættu ekki að láta hræðast vegna hryðjuverksins.

Frönsk yfirvöld höfðu ekki staðfest síðdegis föstudaginn 21. apríl að tengsl væru á milli Karims Cheurfis og Daesh, Hann var handtekinn í febrúar 2017 vegna gruns um að hann ætlaði að ráðast á lögregluna en honum var sleppt vegna skorts á sönnunum.

Hann var dæmdur árið 2005 fyrir þrjár morðtilraunir, tvær þeirra voru gegn lögreglumönnum. Málin áttu upphaf sitt árið 2001 þegar hann stal bíl og flúði undan lögreglunni. Hann var þá vopnaður og skaut á tvo lögreglumenn sem eltu hann. Eftir að hann var handtekinn og dæmdur særði hann alvarlega lögreglumann sem fylgdi honum úr fangaklefa hans – hrifsaði byssu hans og skaut hann nokkrum sinnum.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …