Home / Fréttir / Lögð áhersla á að hraða gerð áætlana um ESB-her

Lögð áhersla á að hraða gerð áætlana um ESB-her

Frederica Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóri NATO.
Frederica Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóri NATO.

Innan Evrópusambandsins hefur verið hraðað vinnu við að koma á fót  ESB-herafla sem sumir óttast að kunni á síðari stigum að koma í stað hernaðarsamstarfs aðildaríkjanna á vettvangi NATO. Á vefsíðunni Telegraph.co.uk. segir að háttsettir embættismenn innan ESB hvetji stjórnendur aðildarríkjanna til að nýta sér sem best „pólitíska svigrúmið“ sem skapist vegna ákvörðunar Breta um að segja skilið við ESB.

Federica Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóri ESB, býr sig nú undir að leggja fram tímasetta áætlun um hvernig staðið skuli að því að koma á fót herstjórna-skipulagi innan ESB sem „starfi sjálfstætt“ gagnvart NATO.

Sagt er að Mogherini hafi látið þau orð falla á fundi með samstarfsmönnum sínum að hernaðaráætlun, sem í sumum löndum er kölluð grundvöllur „Evrópuhers“, væri tæki sem ESB gæti nýtt til að ná sér á strik eftir „áfallið“ vegna úrsagnar Breta úr ESB.

Í breska blaðinu The Times segir að Mogherini hafi flutt ræðu á fundi með ESB-sendiherrum og sagt: „Við höfum pólitískt svigrúm núna til að gera hluti sem í raun hefur ekki verið unnt að gera á undanförnum árum.“

Í hernaðaráætluninni er gert ráð fyrir að þjóðir á borð við Frakka, Þjóðverja, Ítali, Spánverja og Pólverja myndi fastskipaða herstjórn sem komi fram fyrir hönd ESB og ráði yfir herafla undir merkjum ESB og 18 stórfylkjum einstakra ríkja.

Innan þessa ramma yrði einnig komið laggirnar höfuðstöðvum í Brussel fyrir ESB-heraflann, þar störfuðu menn í kappi við NATO. Stjórnvöld í Tékklandi og Ungverjalandi lýstu í fyrri viku stuðningi við áform um að „koma á fót sameiginlegum Evrópuher“.

Í ítalska blaðinu La Repubblica birtist nýlega grein þar sem lýst var áhuga Matteos Renzis, forsætisráðherra Ítalíu, á að varnarsamstarf aukist innan ESB.

Líklegt er talið að á fundi leiðtoga 27 ESB-ríkja (án Breta) í Bratislava í Slóvakíu 16. september verði rætt hvernig skuli staðið að skjótum framgangi tillagna um nánara hernaðaramstarf ríkjanna.

Bretar hafa jafnan lagst gegn hugmyndum um ESB-herafla. Embættismenn NATO telja að nýskipan hermála í þessa veru innan ESB kunni að skapa togstreitu á sviði þar sem ríki eigi að leggjast á eitt í stað þess að skipta liði, viðurkenna eigi leiðandi hlutverk NATO í varnar- og öryggismálum.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …