Home / Fréttir / Loftslagsaðgerðir Svisslendinga í uppnámi

Loftslagsaðgerðir Svisslendinga í uppnámi

Svissneskir mótmælendur gegn COVID-aðstoð við fyrirtæki.

Meirihluti Svisslendinga hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu sunnudaginn 13. júní tillögu ríkisstjórnarinnar um að stuðla að minnkun útblásturs með gjaldtöku af bíleigendum og gjaldi á flugmiða. Þar með er loftslagsstefna ríkisins í lausu lofti og óvissa ríkir um hvernig markmiðum Parísarsamkomulagsins frá 2015 verður náð í Sviss.

Áhyggjur margra af slökum hagvexti á tíma COVID-19-faraldursins virðist hafa ráðið hjá mörgum. Þá bentu andstæðingar tillagna stjórnvalda einnig á að Svisslendingar bæru aðeins ábyrgð á 0,1% af útblæstri í heiminum. Mikill vafi væri um að tillögurnar skiluðu því sem þeim væri ætlað.

Mjótt var á munum, 51% höfnuðu tillögunum en 49% studdu þær. Markmið ríkisstjórnarinnar var að helminga útblástur miðað við 1990 árið 2030.

Imogen Foulkes, fréttaritari BBC í Bern, höfuðborg Sviss, segir að úrslitin í atkvæðagreiðslunni séu gífurlegt áfall fyrir ríkisstjórn Sviss sem hafi undirbúið tillögur sínar og lagafrumvarp af alúð með því að auka samhliða notkun endurnýjanlegra orkugjafa og galdtöku á jarðefnaeldsneyti.

Ríkisstjórnin verði núna að taka upp þráðinn að nýju til að sporna gegn því að Svisslendingar skapi sér sérstöðu meðal nágrannaþjóða sinna vegna aðgerðarleysis í loftslagsmálum.

Tillaga um að banna tilbúið skordýraeitur og önnur um að auka gæði drykkjarvatns með því að styrkja aðeins bændur sem sneiða hjá efnablöndum voru báðar felldar með 61% atkvæða. Bændur sögðu að samþykkt tillagnanna yrði til þess að margir mundu bregða búi.

Samhliða tilögunum um loftslags- og umhverfismál voru greidd atkvæði um hvort veita ætti lögreglu víðtækari heimildir til að takast á við hryðjuverk og hvort áfram ætti að veita fé úr opinerum sjóðum til að styðja fyrirtæki vegna COVID-19. Hvoru tveggja var samþykkt.

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …