Home / Fréttir / Loftbelgjum grandað yfir Alaska og Yukon í Kanada

Loftbelgjum grandað yfir Alaska og Yukon í Kanada

Kanadísk F-18 orrustuþota.

Loftbelgur var skotinn niður yfir Yukonhéraði í Kanada laugardaginn 11. febrúar. Þá sást eitthvað óþekkt á ratsjá yfir Montanaríki í Bandaríkjunum en yfirvöld sögðu að þar væri um villumerki að ræða.

Þegar merkið sást yfir Montana síðdegis laugardaginn 11. febrúar lokuðu yfirvöld flugleiðum yfir bæinn Havre. Sagt var að flugbannið mætti rekja til þess að svo virtist sem „grunsamlegur hlutur kynni að skapa hættu fyrir áætlunarflug“.

Flugleiðirnar voru opnaðar aftur að kvöldi laugardagsins þar sem yfirvöld töldu um villumerki að ræða.

Frá því föstudaginn 10. febrúar hafa tveir loftbelgir verið eyðilagðir yfir Norður-Ameríku.

Sá fyrri var skotinn niður á föstudeginum þegar hann var yfir norðurhluta Alaska. Brakið úr honum lenti á ísbreiðu skammt frá Prudhoe flóa, í nágrenni við þorpið Deadhorse.

Síðari belgurinn var skotinn niður laugardaginn 11. febrúar yfir fámennu þorpi, Mayo, í Yukonhéraði í Kanada. Neðan í honum hékk hólkur „ekki eins stór og neðan í fyrsta kínverska njósnabelgnum“.

Eftir að hafa haft samband við Joe Biden Bandaríkjaforseta gaf Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, flugherjum Bandaríkjanna og Kanada heimild til að fljúga í veg fyrir „óþekktan hlut á flugi í lofthelgi Kanada“.

Tvær bandarískar orrustuþotur af F-22 Raptor gerð fóru á loft frá Elmendorf-Richardson flugherstöðinni í Alaska og tvær F-18 kandarískar orrustuþotur fóru frá stöðinni Cold Lake í Albertafylki. Verkefnið var að granda óþekkta loftfarinu. Það var gert úr annarri Raptor þotunni sem skaut AIM-9X flaug á belginn í um 12 km hæð.

Trudeau þakkaði NORAD, Norður-loftvarnamiðstöðinni í Colorado Springs í Coloradoríki í Bandaríkjunum, viðbrögðin. Anita Anand, varnarmálaráðherra Kanada, lýsti ánægju með þessi sameiginlegu viðbrögð flugherja landanna.

Pat Ryder hershöfðingi sagði föstudaginn 10. febrúar á blaðamannafundi í bandaríska varnarmálaráðuneytinu, að gengið hefði verið til þess verks að finna brakið úr belgnum sem var skotinn niður yfir Alaska.

„Á þessari stundu höfum við ekki upplýsingar um hlutinn, hvert var hlutverk hans eða hvaðan hann kom. Hann lítur út eins og lítill bíll og er ekki eins stór eða í laginu eins og háloftabelgurinn sem var skotinn niður við strönd Suður-Karólínu 4. febrúar.“

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …