Home / Fréttir / Loftárás gerð í Íran – stjórnvöld láta kyrrt liggja

Loftárás gerð í Íran – stjórnvöld láta kyrrt liggja

Íranir segjast hafa gripið til loftvarna við mikilvæga flugherstöð og kjarnorkuver nærri borginni Isfahan eftir að hafa séð dróna á flugi aðfaranótt föstudagsins 19. apríl. Af orðum Írana mátti ekki ráða hvort ráðist hefði verið á land þeirra. Hvergi var það staðfest af opinberri hálfu í Íran.

Íranskir ríkisfjölmiðlar sögðu að skotið hefði verið úr loftvarnakerfum í nokkrum héruðum vegna þess að drónar hefðu sést á flugi.

Fars-fréttastofan sagði frá „þremur sprenginum“ skammt frá Qahjavarestan, nálægt flugvellinum við Isfahan og 8. ­Shekari-flugherstöðinni. Talsmaður írönsku geimstofnunarinnar sagði að tekist hefði að granda „nokkrum“ drónum. Hann sagði á X að ekki hefðu neinar tilkynningar borist um „árás skotflauga“.

Opinbera fréttastofan INRA sagði að ekkert benti til stórskaða eða mikilla sprenginga vegna ógnar úr lofti.

Þá kom fram í ýmsum írönskum fjölmiðum og orðum embættismanna að „flugumenn“ hefðu staðið að baki þessum árásum frekar en Ísraelar og engar hefndaraðgerðir væru á döfinni.

Í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, er á hinn bóginn haft eftir ónefndum embættismönnum að Ísraelar hafi gert hefndaárásir á erkióvin sinn í Íran. Hafi þeir gert Bandaríkjastjórn viðvart um að árásin væri á döfinni. Bandarísku heimildarmennirnir segja að Bandaríkjamenn hafi hvorki lagt blessun sína yfir aðgerðina né komið að henni.

Af opinberri hálfu í Ísrael var ekkert sagt um málið en Itamar Ben Gvir þjóðaröryggisráðherra sætti gagnrýni fyrir að láta í það skína á samfélagsmiðli að Ísraelar stæðu að baki sprengingunum í Íran.

Ráðherrann, sem er í harðlínuhópi innan stjórnar Ísraels, setti á X orðið „Fuglahræða!“ en það er notað á hebresku til að lýsa einhverjum sem er huglaus eða veiklyndur. Er þetta talið til marks um að ráðherranum þyki Ísraelar hafa sýnt kjarkleysi með því að beita ekki meira afli.

Natanz-kjarnorkuverið, meginaðsetur þeirra sem vinna að kjarnorkuvæðingu Írans, er í Isfahan-héraði. Talsmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunar SÞ sagði að ekkert hefði ógnað öryggi kjarnorkuversins.

Ísraelsstjórn hafði heitið því að svara óvæntri dróna- og skotflaugaárás Írana á Ísrael aðfaranótt 13. apríl.  Íranir gerðu þá loftárás með meira en 300 vígvélum og sögðust með því hefna fyrir árás Ísraela á sendiskrifstofu Írans í Damaskus, höfuðborg Sýrlands 1. apríl. Ísraelar grönduðu 99% írönsku flauganna og varð aðeins smávægilegt tjón af árásinni í Ísrael.

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …