
Hér var laugardaginn 26. mars birt frétt um að ljósklæddi maðurin með hattinn, þriðji maðurinn í sprengjuárásinni á Brussel-flugvelli 22. mars, hefði fundist við sakbendingu leigubílstjóra. Var sagt að maðurinn héti Fayçal Cheffou, lausamaður við fjölmiðlun og smali fyrir öfgahópa múslima. Mánudaginn 28. mars lét lögreglan Fayçal Cheffou lausan.
Við ritun fréttarinnar var vitnað í belgíska blaðið Le Soir sem sagðist hafa traustar heimildir fyrir sakbendingu leigubílstjórans sem ók þremenningunum út á flugvöll hinn örlagaríkja morgun þriðjudagsins 22. mars.
Nú segir saksóknari að vísbendingar um sekt Fayçal Cheffou hafi ekki verið á rökum reistar. Tekið er fram að hvroki við handtöku Cheffous né síðar hafi belgíski ríkissaksóknarinn staðfest grun um að hann væri þriðji hryðjuverkamaðurinn á mynd sem sýndi þrjá menn ganga með sprengjur inn í flugstöðina.
Belgíska blaðið DH sagði strax laugardaginn að hafa yrði fyrirvara á fullyrðingum um aðild Cheffous þótt margt benti hennar. Hann þótti til dæmis haga sér skringilega fyrir framan Maelbeek-lestarstöðina í þann mund sem sprengja sprakk þar að morgni 22. mars. Hins vegar er þess jafnframt getið að hann býr skammt frá lestarstöðinni og því hafi forvitni dregið hann að henni við sprenginguna.
Þótt Cheffou kynnti sig sem blaðamann er hann einnig þekktur fyrir að virkja hælisleitendur í þágu öfgahyggju með því að taka þá tali í Maximilien-garðinum í Brussel.