Home / Fréttir / Lítil skref til að staðfesta sáttavilja á Kóreuskaga

Lítil skref til að staðfesta sáttavilja á Kóreuskaga

Hermenn S-Kóreu taka niður áróðurshátalarakerfið.
Hermenn S-Kóreu taka niður áróðurshátalarakerfið.

Stjórnvöld S-Kóreu ætla að slökkva á hátalarakerfinu á markalínunni gagnvart N-Kóreu. Kerfið hefur verið notað til að varpa áróðri og tónlist yfir í N-Kóreu. Í N-Kóreu ætla menn að taka upp sama tíma og í S-Kóreu. Þetta er meðal þess sem rakið er til leiðtogafundar ríkjanna föstudaginn 27. apríl.

Hátalarakerfi S-Kóreumanna var sett upp árið 2015. Það verður fjarlægt þriðjudaginn 1. maí segir varnarmálaráðuneyti S-Kóreu.

Greint var frá því í N-Kóreu sunnudaginn 29. apríl að tekinn yrði upp sami tími í landinu og í S-Kóreu, verður klukkunni flýtt um hálfa klukkustund. N-Kóreumenn seinkuðu klukku sinni árið 2015 með þeim rökum að þar með yrði sagt skilið við arfleifð nýlendustjórnar Japana.

Eftir leiðtogafundinn var gefin úr yfirlýsing þar sem báðir aðilar lýstu andstöðu við innbyrðis óvild, stuðningi við fjölskyldusameiningu og kjarnorkuvopnalausan Kóreuskaga.

Fyrir fundinn með forseta S-Kóreu fór Kim til Peking og hitti forseta Kína. Var það fyrsta utanlandsferð Kims frá því að hann tók við völdum árið 2011. Miðvikudag og fimmtudag í þessari viku, 2. og 3. maí, hittir Kim Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, í Pjongjang, höfuðborg N-Kóreu.

Fréttaskýrendur segja að ákvörðun Kínverja, helstu bandamanna N-Kóreustjórnar, að innleiða viðskiptabann á N-Kóreumenn vegna eldlaugatilrauna þeirra hafi leitt til rofs í viðskiptum þjóðanna og þar með knúið Kim til að breyta um utanríkisstefnu.

Ráðgert er að Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un hittist í maí eða júní.

Embættismenn í S-Kóreu segja að Kim yrði til þess búinn að falla frá kjarnorkuáformum sínum skuldbindi Bandaríkjamenn sig til að ljúka Kóreustríðinu (1950 til 1953) og til að ráðast ekki á N-Kóreu.

John Bolton, nýskipaður þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, var spurður af CBS-sjónvarpsstöðinni sunnudaginn 29. apríl hvort Bandaríkjastjórn mundi skuldbinda sig á þennan hátt. Bolton lýsti efasemdum: „Við höfum nú heyrt þetta áður … Áróðurshandbók N-Kóreu er ótæmandi uppspretta. Við viljum að þeir sýni okkur að þeim sé í raun alvara en stundi ekki aðeins orðaleiki.“

 

 

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …