Home / Fréttir / Litháen: Rússar taldir standa að baki falsfrétt um nauðgun

Litháen: Rússar taldir standa að baki falsfrétt um nauðgun

Þýskir hermenn í Kaunas í Litháen.
Þýskir hermenn í Kaunas í Litháen.

Rannsókn er hafin í Litháen á því hver sé ábyrgur fyrir falskri frétt um nauðgun. Óttast er að Rússar standi að baki fölsuninni til að skapa ólgu meðal Litháa vegna fjölgunar liðsmanna undir merkjum NATO í Eystrasaltslöndunum.

Vytautas Bakas, formaður þingnefndar Litháa um þjóðaröryggi og varnarmál, sagði föstudaginn 17. febrúar að málið yrði rannsakað með tilliti til þess að ef til vill væri um skipulagða fréttafölsun að ræða í því skyni að skapa tortryggni milli bandamanna innan NATO. Hann sagði lögregluna stjórna rannsókninni. Yfirvöld í Litháen hefðu verið undir það búin að til slíks atviks kynni að koma.

Rannsóknina að fyrirlagi þingnefndarinnar má rekja til þess að forseti þings Litháens fékk tölvubréf þar sem fullyrt var að hópur þýskumælandi manna hefði nauðgað 15 ára stúlku í smábæ skammt frá herbúðum Þjóðverja.

Lögreglan hefur þegar sannreynt að um ranghermi var að ræða. Nú er kannað hver stóð að baki lygunum. Saksóknari segir að tölvubréfið hafi borist frá landi utan ESB.

Þjóðverjar hafa forystu fyrir 1.000 manna herliði undir merkjum NATO í Eystrasaltslöndunum. Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, var í Lithaén fyrir nokkrum dögum og hitti meðal annars Daliu Grybauskaite, forseta Litháens, við hátíðlega athöfn til að fagna hermönnunum.

Bakas sagði að upplýsingafölsunin væri tilraun til að „grafa undan samvinnu okkar við bandamenn okkar, ala á tortryggni í garð ríkisstjórnarinnar, hafa áhrif á pólitískar ákvarðanir eða gera lítið úr NATO“. Sem betur fer hefði þetta ekki vakið mikla athygli meðal almennings. „Það sýnir að fólk hefur nú þegar áttað sig á nauðsyn þess að leggja gagnrýnt mat á fréttaflutning,“ sagði hann við þýsku fréttastofuna DW.

Í fyrra fluttu rússneskar fréttastofur frétt um að 13 ára gamalli rússnesk/þýskri stúlku að nafni Lisa hefði líklega verið nauðgað af arabískum flóttamönnum í Berlín. Þessi frétt hefur síðan verið talin til marks um hve Rússar séu tilbúnir að ganga langt í fréttafölsunum í von um að skapa sundrungu og ólgu í vestrænum samfélögum.

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …