Home / Fréttir / Litháar vilja bandaríska herstöð

Litháar vilja bandaríska herstöð

Við landamæri Litháens.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hvatti, í sjónvarpsviðtali 10. febrúar, Bandaríkjamenn til að hverfa tafarlaust frá Úkraínu vegna yfirvofandi stríðsátaka. Hann sagði að stjórn sín myndi ekki senda her inn í Úkraínu Bandaríkjamönnum til bjargar.

Stjórnvöld í Litháen hvetja Bandaríkjastjórn til að senda herlið með fasta viðveru til lands síns frekar en halda þar úti hreyfanlegum liðsafla.

„Það yrði besta leið NATO til að efla öryggi og fælingarmátt, ekki aðeins í Litháen heldur fyrir allt svæðið,“ sagði Gitanas Nauseda, forseti Litháens, við blaðamenn miðvikudaginn 9. febrúar.

Ráðamenn í Washington og innan NATO hafa jafnan lagst gegn hugmyndum um fasta viðveru erlends herafla í NATO-ríkjum í austurhluta Evrópu. Vilja þeir þar með sýna að þeir ögri ekki Rússum á neinn hátt. Í þess stað er herafli undir merkjum NATO sendur til landanna til afmarkaðs tíma hverju sinni.

Nauseda forseti var í bænum Rukla að fagna komu þýskra hermanna þangað þegar hann lét ofangreind ummæli falla. Sagðist hann ætla að ræða fasta viðveru bandarískra hermanna í Litháen við Bandaríkjastjórn.

Allar götur frá árinu 2014 þegar Rússar hófu hernaðarbrölt sitt í Úkraínu hafa Litháar og aðrar NATO-þjóðir í austurhluta Evrópu óskað eftir meiri viðveru bandaríska hersins. Vegna umsáturs Rússa um Úkraínu núna hafa þessar óskir meiri hljómgrunn innan NATO og í Washington.

Á árunum frá 2014 hefur bandaríski herinn látið meira að sér kveða í Evrópu en áður frá 1990. Tugir þúsunda bandarískra hermanna hafa verið sendir til tímabundinnar dvalar í Rúmeníu, Póllandi og Eystrasaltsríkjunum þremur. Herir frá öðrum NATO-ríkjum hafa einnig komið þar við sögu.

Vegna ástandsins núna hefur bandaríska varnarmálaráðuneytið fjölgað bandarískum hermönnum í Evrópu. Til dæmis hafa 1.700 fallhlífahermenn verið sendir til Póllands frá Fort Bragg í Norður-Karólínuríki. Um 1.000 hermenn voru sendir frá bandarísku herstöðinni í Vilseck, Þýskalandi, til að efla varnir Rúmeníu.

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …