
Árið 2012 stofnuðu Kínverjar til samstarfs við 17 ríki í mið- og austurhluta Evrópu, á Balkanskaga og við Eystrasalt. Í þeim hópi er Litháen en Konstantin Eggert, fréttaskýrandi Deutsche Welle (DW), segir að stjórn Litháens hafi nú ákveðið að eiga ekki viðskipti við Kína heldur snúa sér til Tævan.
Litháir vilji ekki verða háðir Kínastjórn undir merkjum fjárfestingastefnu hennar sem kennd er við belti og braut.
Eggert segir að þessi „einstaklega hugdjarfa“ ákvörðun Litháa, lítillar ESB-þjóðar, sé í samræmi við þverpólitíska afstöðu á þinginu í Vilnius um að höfuðáhersla skuli lögð á NATO-aðild Litháens og andstöðu þjóðarinnar við forræðisstjórnir. Litháar vilji að litið sé á land sitt sem „framlínuland“ gegn Vladimir Pútín Rússlandsforseta og Alexander Lukasjenko í Hvíta-Rússlandi.
Litháar leggi nágrönnum sínum í Úkraínu ómetanlegt lið í átökum þeirra við Rússa. Þeir taki þátt í þjálfun hermanna frá Úkraínu og veiti hermönnum þaðan einnig læknisaðstoð fyrir utan öflugan pólitískan stuðning á alþjóðavettvangi. Þá leiti landflótta stjórnarandstæðingar frá Rússlandi gjarnan skjóls í Litháen.
Konstantin Eggert segir að rekja megi þessa einörðu afstöðu um þriggja milljóna Litháa til reynslu þjóðar þeirra á 20. öldinni þegar Jósef Stalín svipti þá og nágranna þeirra í Lettlandi og Eistlandi frelsi og beitti þjóðina harðræði. Litháar drógu þann lærdóm af þessu að því aðeins stæðust þjóðir ásælni erlendra ofríkisstjórna að þær nytu virðingar. Hennar yrði ekki aflað nema menn hopuðu hvergi og væru reiðubúnir til að færa fórnir. Þótt slík afstaða fari í taugarnar á mönnum eins og Pútin og Xi Jinping neyðist þeir til að virða hana.
Með því að segja sig frá viðskiptasamstarfi við stjórnendur í Peking er stigið markvisst skref til að skaprauna þeim. Ákveði Kínverjar að „refsa“ Litháum á sviði viðskipta sjá stjórnendur fyrirtækja í Litháen tækifæri til að leita fyrir sér á nýjum mörkuðum. Þetta gerðu þeir eftir að Pútin setti innflutningsbann á mörg matvæli frá ESB-löndum (og Íslandi) til að svara refsiaðgerðum sem gripið var til eftir að hann innlimaði Krímskaga í Rússland árið 2014.
Þá vona Litháar að hörð afstaða gegn Kínverjum gagnist þeim í samskiptum við nýja stjórnendur í Washington undir forsæti Joes Bidens. Eystrasaltsþjóðirnar setja mikið traust á öflugustu bandalagsþjóðina innan NATO, Bandaríkjamenn.
Biden-stjórnin mótar nú afstöðu sína til Kína og þar sé að finna svipaðar meginlínur og einkenndu stefnu Bandaríkjanna í tíð Donalds Trumps. Fyrr eða síðar verði aðildarríki NATO að stilla saman strengi sína gagnvart Kína. Í því efni skapi Litháar sér nú sérstöðu meðal Evrópuþjóða með festu sinni og óttaleysi við að taka viðskiptalega áhættu andspænis Kínastjórn sem gefi leynt og ljóst til kynna að þeir gjaldi þess sem ekki sitji og standi eins og hún vill.
Konstantin Eggert segir að svo virðist sem stjórnmálamenn í Vilnius skynji að samstaða þjóðanna beggja vegna Atlantshafs ráðist á 21. öld af því að ríki átti sig á að við nýjar alþjóðlegar ögranir sé að glíma.