Home / Fréttir / Línur skýrast en engin lausn í símtali Bidens og Pútins

Línur skýrast en engin lausn í símtali Bidens og Pútins

Joe Biden og Vladimir Pútin

Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagði í símtali við Joe Biden Bandaríkjaforseta að kvöldi fimmtudags 30. desember að það leiddi til algjörs rofs í samskiptum Rússa við Bandaríkjamenn ef gripið yrði til nýrra refsiaðgerða vegna spennu í Úkraínu. Hertar refsiaðgerðir væru „hrikaleg mistök“.

Pútin bað um símtalið við Biden sem stóð í 50 mínútur, þetta var annar fjarfundur forsetanna í desember 2021. Embættismenn landanna hittast í Genf 10. janúar 2022, 12. janúar er ráðgert að halda fund í samstarfsráði Rússa og NATO-þjóðanna og 13. janúar í ráði ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.

Biden sagði að gripið yrði til efnahagslegra gagnaðgerða færu Rússar með her gegn Úkraínumönnum. Mikið rússneskt herlið hefur tekið sér stöðu við landamæri Úkraínu undanfarnar vikur.

Kremlverjar vilja frá örugga tryggingu fyrir því að Úkraína verði aldrei aðildarland NATO. Þá vilja þeir jafnframt tryggingu fyrir því að NATO setji ekki upp vopnakerfi í fyrrum ríkjum Sovétríkjanna, þar á meðal Georgíu.

Biden neitar að verða við kröfum Pútins. Jen Psaki, blaðafulltrúi forsetans, sagði að Biden hefði verið afdráttarlaus þegar hann sagði að Bandaríkin, bandamenn og samstarfsþjóðir mundu „svara af þunga“ ef Rússar færðu sig frekar upp á skaftið með her sínum gegn Úkraínu.

Biden áréttaði að bandaríska þjóðin væri reiðubúin að axla umtalsverðar efnahagslegar byrðar með refsiaðgerðum gripi Pútin til vopna gegn Úkraínu.

Pútin svaraði og sagði að slíkar gagnaðgerður „yrðu mistök sem forfeður okkar teldu alvarlega villu. Undanfarin 30 ár hafa verið gerð mörg mistök og það er best fyrir okkur að forðast að gera slík mistök í þessari stöðu,“ sagði Júrí Ushakov, utanríkismálaráðgjafi Pútins.

Ráðamenn í Kiev telja að nú séu 60.000 til 90.000 rússneskir hermenn við norður, austur og suður landamæri Úkraínu. Bandaríkjastjórn er ekki sannfærð um sannleiksgildi yfirlýsinga Rússa um að þeir hafi fyrir nokkrum dögum sent um 10.000 hermenn aftur til búða sinna fjarri landamærunum. Bandaríski herinn sendi í fyrsta sinn JSTARS eftirlitsflugvél í lofthelgi Úkraínu í þessari viku.

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …