
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, flutti setningarávarp á árlegri Leangkollen öryggisráðstefnu Norsku Atlantshafssamtakanna sem var haldin í Osló dagana 5.-6. febrúar.
Stoltenberg gerði að umtalsefni sínu óstöðugt öryggisumhverfi Evrópu sem innlimun Rússlands á Krímskaganum og áframhaldandi stuðningur við aðskilnaðarsinna í austurhéruðum Úkraínu hefði valdið. NATO hefði brugðist við þessu ótrygga ástandi með því að styrkja varnir aðildarríkja sinna í austri með auknum herafla í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi, auk þess að stækka viðbragðsherafla sem senda má á vettvang með skömmum fyrirvara, allt að 30.000 manns.
Versnandi sambúð við Rússland og óvissa um þróun mála í Evrópu mun setja svip sinn á leiðtogafund NATO sem verður í júlí í Brussel. Stoltenberg telur að leiðtogar bandalagsríkjanna 29 muni meðal annars samþykkja styrkingu herstjórnarkerfis bandalagsins og þar með sérstaka herstjórn fyrir Norður-Atlantshafið. Um hafið liggja mikilvægar siglingaleiðir auk þess sem símalínur og ljósleiðarar sem tengja heimsálfurnar liggja á botni Atlantshafsins. Það er í raun órjúfanlegur hlekkur á milli Norður-Ameríku og Evrópu sem bandalaginu ber að vernda.
Stoltenberg vék einnig að aðgerðum bandalagsins í Afganistan og Írak sem hann sagði að myndu halda áfram að færast frá beinni þátttöku í hernaðaraðgerðum til þess að þjálfa öryggissveitir heimamanna. Þetta skref væri stigið til frambúðar og vék Stoltenberg að því að bandalagið myndi í framtíðinni draga úr þátttöku í hernaðarátökum utan landsvæðis aðildarríkja sinna.