
Donald Trump hefur setið undir því næstum frá þeirri stundu sem hann varð forseti að sakamálarannsókn færi fram á einhverju honum tengdu á einn veg eða annan. Eftir atburði þriðjudagsins 21. ágúst þegar Michael Cohen, einkalögfræðingur hans, játaði sig sekan og Paul Manfort, fyrrv. formaður kosningastjórnar hans, var fundinn sekur um fjársvik þyngdist enn róðurinn fyrir forsetann vegna sakamála þótt ekki hafi verið bornar á hann neinar sakir.
Robert Mueller, sérstakur saksóknari vegna rannsóknar á afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016, fer nákvæmlega í saumana á því hvort Trump eða samstarfsmenn hans í kosningabaráttunni hafi stofnað til samsæris með erlendu ríki til að sigra í kosningunum. Jafnframt er athugað hvort forsetinn hafi reynt að bregða fæti fyrir rannsóknina úr Hvíta húsinu. Nú eru aðeins fáeinir mánuðir til þingkosninga í Bandaríkjunum sem gætu ráðið úrslitum um farsæld forsetans á síðari hluta fyrra kjörtímabils hans.
Demókratar hafa nýtt sér mál Manaforts og Cohens – þeirra beggja bíður nokkurra ára fangelsisvist. Þeir segja að Trump sé á kafi í misferlum og spillingu.
Í Hvíta húsinu segja starfsmenn forsetans í einkasamtölum við fjölmiðlamenn að erfitt sé fyrir þá að meta skaðann vegna þess sem gerðist hjá réttvísinni 21. ágúst.
Að kvöldi þriðjudagsins 21. ágúst var Trump í Charleston í Vestur-Virginíuríki. Hann minntist ekki á Cohen en varði Manafort og sagði hann „góðan mann“ sem hefði flækst inn í rannsókn sem teygði sig langt út fyrir upphaflegt umboð sérstaka saksóknarans.
„Þetta snerti ekkert leynimakk með Rússum,“ sagði Trump við fréttamenn. „Nú halda nornaveiðarnar áfram.“
Í ræðu sinni á almennum fundi spurði forsetinn: „Hvar er leynimakkið? Finnið leynimakkið?“ Hann hélt sér hins vegar við sömu viðfangsefni og áður: viðskiptamál, ólögega innflytjendur, skemmdarstarf demókrata og fjölmiðla. Hann sagð að ólöglegir innflytjendur yrðu „sláandi hjarta“ komandi þingkosninga.
Lögspekingar sögðu að að ómögulegt væri að segja fyrir um áhrif dómsins yfir Manafort eða játninga Cohens á frekari rannsókn mála. Demókratar sögðu hins vegar að þessar málalyktir sýndu að Trump færi með rangt mál þegar hann segði Mueller stunda pólitíska rannsókn.
Rudolph W. Giuliani, lögmaður Trumps, sagði í yfirlýsingu: „Í ásökunum stjórnvalda á hendur Cohen er ekki að finna neina vísbendingu um að forsetinn hafi brotið af sér. Það er rétt sem saksóknarinn sagði að framganga Cohens einkennist af lygum og óheiðarleika um all langan tíma.“
Cohen dró hins vegar ekkert undan þegar hann lýsti sekt forsetans í réttarsalnum þar sem hann játaði eigin sök. „Í samráði við og undir forsjá frambjóðanda til alríkisembættis,“ sagðist Cohen hafa (1) misnotað kosningafé til að borga 130.000 dollara til Stormy Daniels klámmyndaleikkonu; (2) misnotað kosningafé til að borga útgáfufyrirtæki National Enquirer til að „ná í og drepa“ sögu Karenar McDougal um meint samband hennar við Trump.
Dómarinn spurði: „Hr. Cohen þegar þér gerðuð allt sem þér hafið lýst vissuð þér að athafnir yðar voru rangar og ólöglegar?“ Cohen svaraði: „Já, herra dómari.“
Áratugum saman var Cohen einkalögfræðingur Trumps og „reddari“ hans. Hann hafði aðgang að smæstu atriðum í viðskipta- og einkalífi forsetans – hann sagði einu sinni að hann mundi ganga í veg fyrir kúlu sem ætluð væri Trump.