
Gengið verður til kosninga í Danmörku miðvikudaginn 5. júní. Skoðanakannanir sýna að „rauða blokkin“ undir forystu Mette Fredriksen, formanns Jafnaðarmannaflokksins, fái meirihluta á þingi.
Sé litið á meðaltal skoðanakannana síðustu daga nýtur flokkur Fredriksen stuðnings 26,8% kjósenda. Sé litið á „rauðu“ flokkana í heild: Sósíalíska þjóðarflokkinn, Einingarlistann (Enhedslisten), Róttæka vinstriflokkinn (Radikale venstre) og Annan kost (Alternativet), njóta þeir 53,8% stuðnings.
Vefsíðan Altinget sagði þriðjudaginn 4. júní að þetta jafngilti því að rauða blokkin fengi 96 þingmenn en sú bláa 79.
Sé litið sérstaklega á flokkinn Hörð stefna (Stram kurs) undir forystu Rasmus Paludans, sem hlotið hefur dóm fyrir rasisma og vill kasta öllum múslimum á brott frá Danmörku, er meðalfylgi hans undanfarna daga 2,1% sem dugar honum til að komast yfir þröskuldinn og inn í þinghúsið. Einstakar kannanir þriðjudaginn 4. júní sýndu flokkinn þó undir þröskuldinum (1,9% hjá Megafon og 1,3% hjá Voxmeter).
Venstre (mið-hægri) er spáð 19.3%. Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra er formaður flokksins. Kannanir sýna að flokkurinn hefur bætt stöðu sína í kosningabaráttunni og talið er að hann kunni að fjölga þingmönnum sínum úr 34 árið 2015 í 35 núna.
Fari svo að Venstre bæti aðeins stöðu sína þótt flokkurinn tapi stjórnarforystunni kann það að létta róðurinn fyrir Lars Løkke að kosningum loknum. Innan flokksins eigi þær raddir vaxandi hljómgrunn sem telja tímabært að skipta um formann. Enginn augljós eftirmaður hans er þó í myndinni.