Home / Fréttir / Líkur á stjórnarkreppu á Spáni – ný tilraun heppnaðist á Ítalíu

Líkur á stjórnarkreppu á Spáni – ný tilraun heppnaðist á Ítalíu

 

Mariano Rajoy yfirgefur fund spænska þingsins þrátt fyrir umræður um vantraust á hann.
Mariano Rajoy yfirgefur fund spænska þingsins þrátt fyrir umræður um vantraust á hann.

Að kvöldi fimmtudags 31. maí blasti við að samþykkt yrði vantraust á Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar. Tillagan var þá til umræðu í neðri deild þings Spánar og lýsti fulltrúi flokks Baska að þeir mundu ekki styðja ráðherrann. Þá  hlyti hún 180 atkvæði við afgreiðslu hennar föstudaginn 1. júní – hreinn meirihluti á þinginu er 176 atkvæði.

Verði stjórnarkreppa á Spáni leiðir það til enn meiri óvissu á suðurvæng Evrópu þar sem allt hefur verið óljóst vegna þróunar stjórnmála á Ítalíu. Þar gerðu uppnámsflokkarnir Fimmstjörnu hreyfingin og Bandalagið aðra tilraun til stjórnarmyndunar fimmtudafginn 31. mái og lögðu nýjan ráðherralista fyrir forseta Ítalíu. Hlaut hann samþykki forsetans og fer nú fyrir þingið til afgreiðslu.

Vantrauststillöguna á Spáni má rekja til nýlegs dóms gegn ýmsum fylgismönnum mið-hægri flokks Rajoys vegna fjármálaspillingar sem einnig tengist flokknum.

Ákveði Rajoy ekki að biðjast lausnar fyrir atkvæðagreiðslunnar þýðir samþykkt tillögunnar að Pedro Sánchez, leiðtogi sósíalista, taki að sér að mynda ríkisstjórn og leiti trausts þingsins. Segi Rajoy af sér situr hann í starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn sem nýtur stuðnings meirihluta þings er mynduð. Stjórnarmyndunin yrði flókin og kynni að taka langan tíma.

Í júní í fyrra var vantrauststilaga á Rajoy (63 ára) felld en hún var flutt af vinstri flokknum Podemos. Verði tillagan nú samþykkt er það í fyrsta sinn í lýðræðissögu Spánar sem það gerist. Sósíalistar flytja tillöguna að þessu sinni.

Sósíalistaflokkurinn á 84 þingmenn. Leiðtogi hans Pedro Sánchez verður þó næsti forsætisráðherra ef flokkarnir greiða atkvæði eins og þeir hafa boðað. Sánchez nýtur stuðnings vinstrisinna í Podemos, Vinstri lýðveldissinna í Katalóníu, Compromís og Nueva Canaris. Þá virðist róttæki baskaflokkurinn EH-Bildu einnig styðja Sánchez eftir að hann sagðist ætla að framkvæma fjárlög Rajoys þótt sósíalistar hefðu áður lýst sig andvíga þeim.

PDeCAT flokkur Carles Puigdemonts, leiðtoga aðskilnaðarsinna í Katalóníu, ætlar að greiða atkvæði gegn Rajoy. Flokkurinn hefur beðið Sánchez að breyta afstöðu sinni til málefna Katalóníu. Sánchez studdi Rajoy þegar hann ákvað að bola stjórn Katalóníu frá völdum í október 2017 og nýlega kallaði hann Quim Torra, nýjan forseta héraðsstjórna Katalóníu, rasista.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …