Home / Fréttir / Líklegt að launmorðingjar beint á vegum Pútíns hafi myrt Litvinenko í London

Líklegt að launmorðingjar beint á vegum Pútíns hafi myrt Litvinenko í London

Alexander  Litvinenko skömmu fyrir dauða sinn.
Alexander Litvinenko skömmu fyrir dauða sinn.

Í niðurstöðum opinberrar breskrar skýrslu um dauða Alexanders V. Litvinenkos, fyrrverandi KGB-manns sem snerist gegn Kremlverjum, segir að „líklega“ hafi Vladimir Pútín Rússlandsforseti og yfirmaður rússnesku öryggislögreglunnar „samþykkt“ að eitrað yrði fyrir Litvinenko.

Robert Owen, fyrrv. yfirréttardómari, birti 328 bls. skýrslu sína um málið fimmtudaginn 21. janúar. Þar koma fram alvarlegri opinberar upplýsingar en áður hafa birst um tengslin milli dauða Litvinenkos 23. nóvember 2006 og æðstu manna innan Kremlar.

Á sínum tíma varð dauði Litvinenkos, sem tók sér hlutverk uppljóstrara og snerist gegn spillingu innan raða öryggislögreglunnar í Moskvu, til þess að samband stjórnvalda í London og Moskvu kólnaði svo mjög að minnti á kalda stríðið. Nú segjast breskir embættismenn ætla að leggja sig fram um að tryggja framhald alhliða samskipta við starfsbræður sína í Moskvu þótt báðir aðilar láti þung orð falla hvor í annars garð.

Owen dómari leggur ekki fram neina beina sönnun um tengsl Pútíns eða nokkurs annars háttsetts, rússnesks embættismanns við morðið og viðurkennir að hann reisi niðurstöðu sína á „sterkum líkum um ábyrgð rússneska ríkisins“. Þar er meðal annars vísað til líklegs uppruna efnisins poloníum sem var notað sem eitur gegn Litvinenko, það hafi komið frá rússneskum kjarnaofni, og einnig til þess að það hafi verið „ríkt tilefni fyrir stofnanir og einstaklinga innan stjórnkerfis Rússland til að grípa til aðgerða“ gegn honum.

„Við hörmum að ósviknu sakamáli hafi verið breytt í pólitískt mál og þar með varpað skugga á tvíhliða samskiptin,“ sagði Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins í Moskvu, við Interfax­-fréttastofuna. „Að sjálfsögðu þurfum við einhvern tíma til að fara nákvæmlega í saumana á efni þessarar skýrslu, að því loknu munu við birta ítarlega umsögn okkar.“

Marina, ekkja Litvinenkos, hvatti til þess eftir birtingu skýrslunnar að rússneskir njósnarar yrðu reknir frá London auk þess sem beitt yrði efnahagsþvingunum persónulega gegn nokkrum einstaklingum, þ. á m. Pútín og Nikolai Patrusjev, fyrrv. njósnaforingja hans.

Rætt var um skýrsluna í breska þinginu og þar sagði Theresa May innanríkisráðherra að dauði Litvinenkos væri til marks um „forkastanlegt og óviðunandi brot á grunnþáttum alþjóðalaga og siðlegrar framgöngu“. Hún bætti við að ekki vekti „undrun“ að Rússar hefðu greinilega átt þarna hlut að máli.

Ráðherrann sagði að eigur Rússanna tveggja, Andreis K. Lugovois og Dmitríjs V. Kotuns, sem grunaðir eru um morðið, yrðu frystar í London og rússneski sendiherrann yrði kallaður fyrir til að hlusta á viðbrögð Breta. Hann brást hinn versti við skýrslunni og sagði hana „grófa ögrun“.

Litvinenko dó 22 dögum eftir að hafa drukkið grænt te úr katli sem hafði verið spillt með poloníum 210 – sjaldgæfum mjög eitruðum ísótóp. Lugovoi og Kovtun sátu með honum við tedrykkjuna. Hann var 43 ára. Mennirnir þrír hittust á Pine Bar í Millennium hótelinu í London.

Lugovoi situr nú á rússneska þinginu og hefur fengið orðu frá Pútín. Hann segir að ásakanir um að hann hafi myrt Litvinenko séu „fráleitar“ og Interfax hefur einnig eftir Dmitríj S. Peskov, talsmanni Pútíns, að Litvinenko-málið sé „ekki meðal þeirra viðfangsefna sem vekja áhuga okkar“.

Um rétt ár er liðið síðan Owen dómari hóf rannsókn sína og má rekja hana til óska ekkju Litvinenkos um að upplýst yrði að fullu um örlög eiginmanns síns. Breska lögreglan hefur sakað Lugovoi og Kovtun um morð. Þeir hafna þessum ásökunum og rússnesk yfirvöld neita að framselja þá, stjórnarskráin leyfi það ekki.

Frá upphafi hafa yfirvöld í London einnig velt fyrir sér hugsanlegri aðild Patrusjevs, yfirmanns FSB öryggislögreglunnar, arftaka KGB, þegar morðið var framið og aðild Pútíns sjálfs.

„Með vísan til allrar vitneskju og greininga sem ég hef kynnt mér,“ segir Owen í skýrslunni. „tel ég að FSB-aðgerðin til að drepa Litvinenko hafi líklega verið samþykkt af Patrusjev og einnig Pútín.“

Hvað sem varlegu orðalagi í skýrslu dómarans líður er hann ekki í neinum vafa um að rússnesk ríkisstofnun hafi skipulagt morðið á Litvinenko. Dómarinn segir:

„Ég er viss um að Lugovoi og Kovtun settu poloníum 210 í teketilinn í Pine Bar [1. nóvember 2006]. […]

Ég er viss um að Lugovoi og Kovtun sinntu erindi fyrir aðra þegar þeir eitruðu fyrir Litvinenko.“

Litvinenko flýði með konu sinni og syni þeirra, Anatolíj, frá Rússlandi til Bretlands árið 2000. Hann fékk breskan ríkisborgararétt nokkrum vikum áður en hann dó. Ekkja hans hefur sagt við rannsókn málsins að eiginmaður hennar hafi starfað sem útsendari fyrir bresku MI6 njósnastofnunina.

Við fyrri rannsókn málsins hefur komið fram að Litvinenko hafi að líkindum leitað að þráðum milli Pútíns og samverkamanna hans við skipulagða glæpahópa. Hann undirbjó ferð til fundar við rannsakendur á Spáni þegar eitrað var fyrir honum.

Heimild: The New York Times, The Telegraph

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …