Home / Fréttir / Líklegt að Danir ákveði aðild að ESB-varnarsamstarfinu 1. júní

Líklegt að Danir ákveði aðild að ESB-varnarsamstarfinu 1. júní

Danir ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu miðvikudaginn 1. júní um hvort falla eigi frá varnarmála-fyrirvaranum vegna aðildar sinnar að ESB. Fyrirvarann settu þeir með þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir 30 árum eftir að hafa hafnað aðild að Maastricht-sáttmála ESB og þar með upptöku evrunnar.

Skoðanakannanir benda til þess að samþykkt verði að falla frá fyrirvaranum. Könnun sem Voxmeter gerði fyrir Ritzau-fréttastofuna sýnir að 48% styðji afnám fyrirvarans. Könnunin var gerð 23. til 29. maí og er sú síðasta fyrir atkvæðagreiðsludaginn.

Könnunin sýnir að 21% hafa ekki tekið afstöðu en 31% ætla að segja nei, það er að þeir hafni því að fyrirvarinn falli úr gildi. Fyrr í mánuðinum var hlutfall þeirra sem vilja halda í fyrirvarann 38%.

Ríkisstjórnin og flokkar í stjórnarandstöðu komu sér saman um það í mars að efnt til yrði til atkvæðagreiðslunnar 1. júní og vísuðu til breyttra aðstæðna vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Þeir sem vilja halda í fyrirvarann segja ríkisstjórnina á þennan hátt „misnota“ stríðsótta almennings með því að knýja í gegn mál sem stjórnmálamenn hafi hikað við að leggja fyrir þjóðina af ótta við að hún hafnaði ráðandi skoðun meðal stjórnmálaforystunnar.

Jaðarflokkarnir, Enhedslisten, lengst til vinstri, og Danski þjóðarflokkurinn (DF) og Nye Borgerlige, lengst til hægri, styðja fyrirvarann og hvetja kjósendur til að segja nei.

Auk varnarmála-fyrirvarans settu Danir fyrirvara vegna ervunnar, ESB-samstarfs um dóms- og lögreglumál og ESB-borgararétt. Atkvæðagreiðslan nú snýr aðeins að varnarmálunum.

Stjórnmálaskýrendur segja að erfitt sé fyrir ólíka skoðanahópa að skýra nákvæmlega hvert sé ágreiningsefni þeirra og hvað sé raunverulega í húfi. Þeir sem vilja fyrirvarann í burtu hafi ekki bent á neitt sem skipti sköpum fyrir Dani þegar litið sé á hugsanlega þátttöku þeirra í aðgerðum á vegum ESB. Þá hafi talsmenn fyrirvarans ekki bent á neitt sem skapi Dönum verulega hættu vegna brotthvarfs hans.

Segja megi að afstaðan ráðist af því hvaða traust menn beri til þess að þingið fari skynsamlega með vald sitt og sendi danska hermenn aðeins til þátttöku í aðgerðum sem þjóna dönskum hagsmunum. Hin hliðin sé svo hvort fólk óttist að ESB þrýstingur leiði til þess að þingið ákveði að senda hermenn til þátttöku í aðgerðum sem draga úr beinum vörnum Danmerkur og framlagi Dana til NATO.

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …