Home / Fréttir / Líkja valdaránstilrauninni í Tyrklandi við þinghúsbrunann í Berlín árið 1933

Líkja valdaránstilrauninni í Tyrklandi við þinghúsbrunann í Berlín árið 1933

 

Heinz-Christian Strache
Heinz-Christian Strache

Heinz-Christian Strache, formaður Freiheitlichen Partei Österreichs (FPÖ), hefur líkt valdaránstilrauninni í Tyrklandi við þinghúsbrunann, Reichstag-brunann, í Berlín á tímum nazista. Árið 1933 notuðu Hitler brunann til að réttlæta aðför sína að borgaralegum réttindum. Erdogan Tyrklandsforseti hefur hafnað nokkurri aðild að valdaránstilrauninni.

Strache sagði í viðtali sem birtist laugardaginn 6. ágúst í Die Presse: „Maður fékk næstum á tilfinninguna að um fjarstýrt valdarán væri að ræða sem hefði að lokamarkmiði að gera Erdogan kleift að beita forsetaeinræði. Hann tók sér síðan algert vald í hendur – með tilbúna lista í höndunum.“

Hann sagði að áður hefðu menn orðið vitni að svo dramatískum atburðum eins og Reichstag-brunanum sem hefði leitt til þess að öll völd lentu á einni hendi.

Nazistar héldu því fram 1933 að kommúnistar stæðu að baki eldsvoðanum í þýska þinginu og væri þetta liður í aðför þeirra að stjórn landsins. Adolf Hitler tók sér í raun alræðisvald í Þýskalandi í framhaldi af brunanum.

Christian Lindner, formaður frjálsra demókrata (FDP) í Þýskalandi, tók í sama streng og Strache í viðtali við Bild am Sonntag sem birtist 7. ágúst þegar hann bar misheppnað valdaránið í Tyrklandi saman við þýska þinghúsbrunann árið 1933. Hann sagði Erdogan vera að koma á einræðisstjórn sem væri algjörlega sniðin að honum sjálfum.

Hann sagði að valdafíkn Erdogans sýndi að hann gæti ekki átt samstarf við Evrópu. Það væri hneyksli að ESB-aðildarviðræðum Tyrkja hefði ekki verið hætt fyrir löngu.

Hópur manna innan tyrkneska hersins gerði tilraun til valdaráns föstudaginn 15. júlí. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur notað tilraunina til að réttlæta handtökur pólitískra andstæðinga innan háskóla, fjölmiðla, réttarkerfisins, stjórnsýslunnar og hersins.

Erdogan hefur brugðist illa við og hafnað öllum ásökunum um að stjórn hans kynni að hafa skipulagt valdaránið. Hann segir landflótta kennimann múslíma sem býr í Bandaríkjunum standa að baki valdaránstilrauninni.

Fyrir nokkrum dögum lagði Christian Kern, kanslari Austurríkis, til að innan ESB ræddu menn leiðir til að binda enda á aðildarviðræður við Tyrki. Utanríkisráðherra Tyrklands svaraði þessari tillögu kanslarans föstudaginn 5. ágúst og sagði Austurríki „höfuðstað róttæks rasisma“.

 

Heimild: dw.de

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …