Home / Fréttir / Lífæð rússneska Krímskagans í ljósum logum

Lífæð rússneska Krímskagans í ljósum logum

Logarnir á Krímbrúnni sáust úr mikilli fjarlægð og svartur reykurinn vakti óhug.

Krímbrúin svonefnda, það er 19 km löng brú sem Vladimir Pútin Rússlandsforseti lét smíða til að tengja Krímskaga við Rússland eftir innlimun skagans árið 2014, stóð í ljósum lögum að morgni laugardags 8. október og höfðu hlutar hennar þá fallið í hafið.

Brúin var einskonar djásn í krúnu Pútins og talin til marks um framtak hans og stjórnsemi. Hún gegndi mikilvægu hlutverki fyrir rússneska herinn sem birgða- og samgönguæð og einnig fyrir íbúa eða gesti á Krímskaga. Þegar þar voru unnin skemmdarverk á rússneskum herstöðvum fyrir nokkrum vikum flýðu tugþúsundir rússneskra bað- og strandgesta um brúna til Rússlands.

Peter Hald, sérfræðingur í öryggismálum við Árósarháskóla, segir við dönsku Ritzau–fréttastofuna að það hafi þurft gífurlegt sprengjuafl til að eyðileggja brúna á þennan hátt.

Hann segir að það sér til marks um kraft sprengjunnar að eldhafið nái yfir meira en allar fjórar akreinar brúarinnar. Það hafi þurft mörg hundruð kíló af sprengiefni til að vinna þetta tjón.

Hann nefnir þrjár aðferðir sem komi til álita þegar lagt sé mat á hvernig skemmdarverkið hafi verið unnið. Sprengjan hafi verið send af skipi, með flutningabíl eða með stóru flugskeyti.

Peter Hald hallast helst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa kynnt sér myndir af sprengingunni á brúnni að flugskeyti hafi verið notað til að granda henni.

Hann segist að vísu ekki hafa séð neina rák á himni á myndunum sem bendi til þess að flugskeyti hafi verið notað. Það sé hins vegar „ótrúlega mikið hvítt neistaflug“ eftir sprenginguna sem að mati efnafræðingsins Halds geti verið leifar eldsneytis.

Hann segir að skoði menn myndskeið á litlum hraða virðist sem það birtist ljós á haffletinum við brúna og síðan sést sprenging. Þetta verði þó að segja með miklum fyrirvara.

Gagnhryðjuverkastofnun Rússlands segir á hinn bóginn að sprenginguna á brúnni megi rekja til þess að flutningabíll hafi sprungið í loft upp. Við það hafi komið upp eldur í sjö olíuflutningavögnum járnbrautarlestar á leið til Krímskaga.

Peter Hald segir að þetta sé ekki ólíkleg skýring miðað við eldhafið. Það dragi þó úr gildi þessarar skýringar að Rússar geri sér mjög vel grein fyrir mikilvægi brúarinnar og því hljóti öryggisgæsla þar að vera mikil. Þessi skýring kunni að vera þægileg fyrir Rússa en hún sé þeim einnig mjög óþægileg vegna þess að hún sýni hve illa þeir hafi gætt öryggis á brúnni.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …