Home / Fréttir / Liðsflutningar æfðir um Narvík til Finnlands

Liðsflutningar æfðir um Narvík til Finnlands

Miðvikudaginn 24. apríl kemur bandarískt skip með hermenn til Narvíkur í Norður-Noregi í tengslum við heræfinguna Immediate Response 2024. Rúmlega tvö hundruð bandarísk farartæki og meira en 300 gámar verða settir í land í Narvíkurhöfn og fara þaðan til Svíþjóðar og Finnlands.

Í tilkynningu norska hersins um æfinguna segir að 3. fótgönguliðsstórfylki bardagasveita úr 10. fjallaherdeild Bandaríkjanna fari um Narvík á leið sinni frá Virginíuríki í Bandaríkjunum til æfinga í Finnlandi.

Bandaríkjamenn muni setja mannafla, farartæki og gáma með tækjum í land í Narvík. Síðan verða menn og búnaður fluttur með lestum og bílum til Finnlands og Svíþjóðar.

Tilgangurinn með Immediate Response í Narvík er að æfa hlutverk Noregs sem móttökulands fyrir liðsauka undir merkjum NATO á leið til Svíþjóðar og Finnlands.

Hlutverkið felst í móttöku, stuðningi með birgðum og aðstoð við flutninga til annarra landa. Það verður farið yfir landamærin um Bjørnfjell og þaðan um Svíþjóð í áttina að æfingasvæðinu í Norðausturskógi. Landhersveitir frá Finnmörku í Noregi taka einnig þátt í æfingunum.

Immediate Response er hluti æfinganna sem fara fram innan ramma heildaræfingarinnar Steadfast Defender 2024. Stendur þessi hluti yfir frá 21. apríl til 31. maí 2024.

Bandaríkjaher kallar þátttöku sína Defender 2024 og frá 28. mars til 31. maí heldur hann úti 17.000 hermönnum í Evrópu sem æfa með um 23.0000 hermönnum frá rúmlega 20 NATO-ríkjum og samstarfsríkjum þeirra. Immediate Response er einn liður í þessum æfingum Bandaríkjahers.

Fluttur er liðsafli og búnaður frá Bandaríkjunum en einnig stuðst við bandarísk hergögn sem eru geymd í Evrópu. Æfingarnar fara fram í 13 NATO-ríkjum.

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …