Home / Fréttir / Leyniþjónustur búast til netátaka

Leyniþjónustur búast til netátaka

cyber terrorism concept computer bomb in electronic environment, 3d illustration
cyber terrorism concept computer bomb in electronic environment, 3d illustration

Í Noregi hefur í ákveðnum tilvikum reynst nauðsynlegt að grípa til öflugra net- og tölvuvarna. Nú hefur Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, sagt blaðinu VG að leyniþjónusta hersins ráði yfir búnaði til að gera tölvu- og netárásir á aðrar þjóðir.

Blaðið spurði varnarmálaráðherrann hvort norsk stjórnvöld hefðu tök á að grípa til árásaraðgerða í netheimum og Frank Bakke-Jensen svaraði:

„Herinn getur gripið til árása. Hvort það skuli gert er reist á mati aðgerðarstjórnar hersins.“

Ráðherrann vildi ekki greina blaðinu frá dæmum um getu hersins á þessu sviði.

„Það er leyniþjónustan sem ræður yfir sóknaraflinu. Á hinn bóginn er varnarmátturinn hjá Netvörnunum (Cyberforsvaret). Og síðan eru ákvarðanir teknar undir handarjaðri aðgerðastjórnar hersins eins og gert er þegar sveitir landhers, flughers og flota eiga hlut að máli,“ sagði varnarmálaráðherrann við VG.

NATO hefur ákveðið að við hlið þriggja greina heraflans: landhers, flughers og sjóhers komi fjórða sviðið það er netheimar (cyber) og þar af leiðandi nether.

Rifjað er upp að fyrir fáeinum dögum hafi Donald Trump Bandaríkjaforseti á síðustu stundu hætt við loftárásir á stöðvar Írana til að hefna fyrir að þeir grönduðu bandarískum eftirlitsdróna.

Síðan var skýrt frá því að nethermenn Bandaríkjanna hefðu brotist inn í netkerfi Írana og komið þar fyrir forritum sem nota megi til að eyðileggja raforkukerfi landsins eða önnur mikilvæg stoðkerfi komi til átaka. Þá segir The New York Times að gripið hafi verið til svipaðra aðgerða gegn Rússum af hálfu Bandaríkjahers.

Á norsku vefsíðunni ABC Nyheter segir Christian Pretorius öryggissérfræðingur að nú vinni leyniþjónustur flestra landa að því að ná fótfestu í innviðum annarra landa.

„Við sjáum tilraunir í þessa veru bæði í Noregi og annars staðar. Þetta getur snúist um öflun upplýsinga eða undirbúning undir árás komi til átaka,“ sagði hann við vefsíðuna.

Fyrir nokkrum vikum sagði norska fréttastofan NTB frá því að í könnun sem PwC gerði hefði komið í ljós að um þriðjungur norskra fyrirtækja hefði orðið fyrir tölvuárás.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …