Hans-Georg Maaßen, yfirmaður þýsku leyni- og öryggisþjónustunnar, BfV, segir að Þjóðverjar verði að ráða yfir eigin spilliforriti til að geta tekist á við tölvuþrjóta. Hann telur hugsanlegt að gerð verði tölvuárás á mikilvæga innviði Þýskalands.
Maaßen sagði við þýsku útvarpsstöðina rbb mánudaginn 14. maí að þýsk yfirvöld yrðu geta gripið til „and-skemmdarverka“ aðgerða vegna árása í framtíðinni.
„Í þessu felst að við eigum að koma fyrir spilliforriti til varnar öllum mikilvægum innviðum okkar sem við gætum ef til vill virkjað klukkan X kæmi til pólitísks ágreinings,“ sagði Maaßen í samtali sem tekið var fyrir fund forstjóra evrópskra leyniþjónustu- og öryggisstofnana í Berlín mánudaginn 14. maí.
Hann minnti á tölvuárás á orkuver í Úkraínu í desember 2015 og sagði að um svipað leyti hefði verið ferð tilraun til árásar á Þýskaland.
Maaßen sagði að ekki væri unnt að útiloka árás þótt stjórnendur allra viðkvæmra stofnana gerðu sér grein fyrir hættunni „vegna þess að margt ef ekki næstum allt er nú tengt netinu“.
Hann ítrekaði fyrri tilmæli sín um að sett yrði í lög heimild fyrir þann sem verður fyrir tölvuáras til að greina þann sem grunaður er um árásina og sækja á hann til að ná aftur eða eyðileggja gögn sem hann hefur stolið.
„Þegar við sjáum gögn flæða úr þýskum tölvum er mikilvægt að við getum tryggt eyðileggingu þeirra jafnvel áður en þau berast þrjótnum,“ sagði Maaßen. „Við viljum ná þessu mikilvæga takmarki.“
Bretland
Andrew Parker, yfirmaður MI5 leyniþjónustunnar í Bretlandi, varaði við því mánudaginn 14. maí að hryðjuverkasamtökin „Ríki íslams“ skipulegðu áfram „eyðileggjandi“ og „flóknari“ aðgerðir í Evrópu eftir að hafa tapað landsvæði sínu í Mið-Austurlöndum.
Parker tekur þátt í fundinum í Berlín. Hann sagði að breskum yfirvöldum hefði tekist að koma í veg fyrir 12 hryðjuverkaárásir síðan í mars 2017. Hann sagði samvinnu milli leyniþjónustustofnana í Evrópu skipta miklu í baráttunni. „Við þörfnumst nú frekar en nokkru sinni sameiginlegs afls,“ sagði Parker.
Danmörk
Eftirgrennslanaþjónusta danska hersins Forsvarets Efterretningstjeneste (FE) býr sig undir að gerð verði alhliða tölvuárás þegar næst verður gengið til þingkosninga í Danmörku, sagð í blaðinu Politiken um helgina.
Fulltrúar FE hafa efnt til samtala við stjórnmálamenn og aðalritstjóra ýmissa fjölmiðla um leiðir til að snúast gegn árásarhættunni.
Kjörtímabil danska þingsins rennur út í júní 2019 og ber að efna til þingkosninga þar í síðasta lagi 19. júní. Lars Findsen, forstjóri FE, óttast að í tengslum við kosningarnar verði reynt að dreifa lygum og ýta undir alls kyns sögusagnir til að vega að einstökum stjórnmálamönnum og flokkum. Hann bendir á „vel heppnaðar áróðursherferðir“ erlendis máli sínu til stuðnings, ekki síst í Bandaríkjunum.
Lars Findsen segir að fjölmiðlar gegni lykilhutverki í baráttunni gegn tölvuárás. Í Bandaríkjunum hafi fjölmiðlamenn verið notaðir til að magna það sem nettröllasmiðjur hafi sett inn á samfélagsmiðla.
Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, segir við Politiken að margir stjórnmálamenn hafi nefnt við sig að þá skorti vitneskju um hvernig nota eigi síma, tölvur og spjaldtölvur á öruggan hátt.