Home / Fréttir / Lettar fella sovéska sigursúlu til að mótmæla innrás Rússa

Lettar fella sovéska sigursúlu til að mótmæla innrás Rússa

Sigursúlan hefur verið felld og höggmyndirnar fjarlægðar úr miðborg Riga.

Tæplega 80 metra há broddsúla (obelisk) frá Sovéttímanum var felld til jarðar í Riga, höfuðborg Lettlands, fimmtudaginn 25. ágúst. Þetta var sigursúla sem reist var til að minnast frelsunar Lettlands undan þýskum nazistum,

Efst á súlunni var rauða stjarnan, tákn sovéskra kommúnista. Setti súlan mikinn svip á miðborg Riga þar til hún var látin falla í nálæga tjörn við mikinn fögnuð og lófatak áhorfenda,

Niðurbrot súlunnar var sýnt beint í fjölmiðlum Lettlands. Með því næst markmið lokaáfanga brotthreinsunar sovéskra minnismerkja í landinu. Hert var á hreinsunarátakinu eftir innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022.

Súlan stóð á milli tveggja höggmynda, önnur sýndi þrjá liðsmenn Rauða hersins, hin var af konu, táknmynd ættjarðarinnar. Listaverkin og súlan voru frá árinu 1985, reist til heiðurs frelsurum Sovét-Lettlands og Riga undan fasískum innrásarher Þjóðverja.

Minnismerkið hefur vakið deilur frá því að Lettland hlaut sjálfstæði árið 1991 og gerðist síðan aðildarríki NATO og ESB.

Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands, sagði á Twitter að með því að afmá minnismerkið væru Lettar að „loka sársaukafullri síðu í sögu sinni og horfa til betri framtíðar“.

Stór hluti (25%) íbúa Lettlands er af rússneskum uppruna og hafa sumir þeirra mótmælt þessari brotthreinsun á minnismerkjum frá Sovéttímanum. Sameiginleg landamæri Rússlands og Lettlands eru 214 km löng.

Á sigurdeginum sem Rússar fagna 9. maí ár hvert til að minnast fallinna í annarri heimsstyrjöldinni hefur hópur fólks jafnan farið að minnismerkinu í Riga og lagt blóm til minningar um sovéska hermenn. Í huga meirihluta Letta er þetta þó ekki sigurdagur heldur upphafsdagur sovéska hernámsins í landinu sem stóð í næstum hálfa öld.

Þing Lettlands samþykkti í maí 2022 að afmá sovésku sigurmerkin og skömmu síðar var það einnig samþykkt í borgarstjórn Riga.

Fyrst voru höggmyndirnar fjarlægðar. Síðan var svæðinu umhverfis súluna lokað fyrir mannaferðum og hún felld eins og áður sagði.

Lettar eru ekki eina þjóðin sem losar sig við sovésk minnismerki eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst.

Pólverjar vinna skipulega að því að fjarlægja eða brjóta niður minnismerki um sovéska Rauða herinn í landi sínu.

Fyrir viku fjarlægðu Eistlendingar sovéska skriðdreka úr minnismerki nærri rússnesku landamærunum og settu í stríðsminjasafn skammt frá höfuðborginni Tallinn. Árið 2007 kom til nokkurra daga óeirða í Tallinn þegar minnismerki um sovéska hermenn var fjarlægt úr miðborginni. Nokkru síðar gerðu rússneskir tölvuþrjótar mikla árás á tölvukerfi í Eistlandi.

Eftir að Pólverjar hertu nú á brotthreinsun sovéskra minnismerkja hjá sér afmáði stjórnin í nágrannalandinu Belarús grafreit pólskra hermanna skammt frá landamærum Póllands.

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …