Home / Fréttir / Leopard 2 skriðdrekar færast nær Úkraínu

Leopard 2 skriðdrekar færast nær Úkraínu

Leopard 2 skriðdrekar á æfingu

Fulltrúar rúmlega 50 ríkja komu saman í Ramstein flugherstöð Bandaríkjamanna í Þýskalandi föstudaginn 20. janúar til að samræma ákvarðanir sínar um hernaðarlegan stuðning við Úkraínustjórn og her hennar vegna innrásar Rússa fyrir tæpum 11 mánuðum. Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, bauð til fundarins.

Rússnesk stjórnvöld segja að það leiði af sér „gífurlega hættu“ á stigmögnun átaka fái Úkraínumenn skriðdreka frá Vesturlöndum.

Þrýstingur magnast dag frá degi utan og innan Þýskalands á Olaf Scholz kanslara vegna kröfu um að Þjóðverjar leggi Úkraínumönnum lið með þungum skriðdrekum sínum af Leopard 2 gerð og falli auk þess frá banni við að stjórnir annarra landa sendi skriðdreka af þessari gerð til Úkraínu. Þjóðverjar seldu öðrum þjóðum skriðdrekana með afskipta-skilmálum.

Frjálsir demókratar og Græningjar sem mynda þingmeirihluta með jafnaðarmönnum í Þýskalandi vilja að skriðdrekar séu sendir til Úkraínu. Jafnaðarmannaflokksmenn Scholz eru ekki samstiga í málinu og nota meðal annars þau rök gegn sendingu skriðdrekanna að með þeim stigmagnist átökin eins og Rússar hafi hótað. Vinstri armur Jafnaðarmannaflokksins hallast að sjónarmiðum Die Linke öfga vinstrisinna með rætur í austur-þýskum kommúnisma.

James Waterhouse, fréttamaður BBC, í Kyív segir að Úkraínustjórn vilji ekki bara skriðdreka heldur mjög marga til að hrekja Rússa endanlega á brott. Stjórnin hefur fagnað að Bretar vilji láta henni í té 14 Challenger 2 skriðdreka en segir að þeir „nægi“ ekki.

Hanno Pevkur, varnarmálaráðherra Eistlands, sagði 20. janúar að hann væri þess „fullviss“ að Þjóðverjar mundu ekki banna að Úkraínumenn fengju Leopard skriðdreka „annað hvort í dag eða næstu daga“.

„Við munum ekki sjá neinar hindranir þegar leitað verður samþykkis við að senda skriðdrekana til Úkraínu,“ sagði Pevkur við BBC.

Þrjár meginástæður eru fyrir þrýstingnum á að fá Leopard 2 gerðina af skriðdrekum:

Í fyrsta lagi er mikið til af þeim. Þeir eru um 3.000 í ýmsum löndum. Yfirmaður hers Úkraínu telur sig þurfa 300 skriðdreka til að vinna sigur.

Í öðru lagi er tiltölulega auðvelt að halda þeim úti. Leopard er nú hluti herja 13 Evrópulanda, auðvelt er því að nálgast varahluti og skotfæri.

Í þriðja lagi voru þeir hannaðir í kalda stríðinu til að takast á við rússneska T-90 skriðdrekann sem rússneski innrásarherinn notar.

Af hálfu Vesturlanda er talið hugsanlegt að á næstu vikum gefist Úkraínuher tækifæri til að sækja gegn Rússum og skapa þeim vandræði áður en þeir hefja vorsókn sína.

Fimmtudaginn 19. janúar skuldbundu níu vestræn ríki sig til að senda fleiri faratæki, stórskotavopn og skotfæri til Úkraínu og Bandaríkjastjórn lofaði að láta í té nýjan „pakka“ fyrir 2,5 milljarða dollara.

Heimild: BBC

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …