Home / Fréttir / Leopard 2: Grænt ljós fyrir Pólverja – Þjóðverjar áfram á gulu

Leopard 2: Grænt ljós fyrir Pólverja – Þjóðverjar áfram á gulu

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands.

Að kvöldi sunnudags 22. janúar sagði Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, við frönsku sjónvarpsstöðina LCI að þýsk stjórnvöld mundu ekki standa gegn ákvörðun Pólverja um að senda Leopard 2 skriðdreka til Úkraínu.

„Eins og málum er nú háttað höfum við ekki verið spurð en verðum við spurð munum við ekki leggjast gegn því,“ sagði utanríkisráðherrann og bætti við: „Við vitum um mikilvægi þessara skriðdreka og þess vegna ræðum við þetta núna við samstarfsaðila ykkar. Við verðum að tryggja að líf fólks og frelsa landsvæði Úkraínu.“

Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, segir í frétt sem birtist á vefsíðu þýsku ARD–sjónvarpsstöðvarinnar mánudaginn 23. janúar að „bráðlega“ verði tekin ákvörðun hvort Úkraínumenn fái Leopard 2 skriðdreka. Ráðherrann segir að þungvopnaða skriðdrekana megi einnig nota til sóknaraðgerða og þess vegna verði að taka ákvarðanir um þá af mikilli varúð.

Þýski varnarmálaráðherrann segir við ARD að það ráðist af mörgum þáttum hvaða ákvörðun verði tekin um Leopard 2. „Þetta snýst meðal annars um öryggi eigin landsmanna okkar og það að við viljum ekki verða aðili að stríðinu,“ segir Pistorius. „Samtímis viljum við styðja Úkraínumenn af öllu afli svo að þeir vinni þetta stríð.“

Pistorius ítrekar að á ráðherra- og ráðamannafundi í Ramstein 20. janúar um stuðning við Úkraínu hafi ekki náðst samstaða um afstöðu. Hann segir fleiri þjóðir í sömu sporum og Þjóðverja, þeir séu ekki einangraðir.

Varnarmálaráðherrann segir að Þjóðverjar hafi þegar lagt Úkraínumönnum til herbúnað og vopn fyrir 3,3 milljarða evra.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …