Home / Fréttir / Leituðu ásjár Pútins – flestir fallnir í orrustu

Leituðu ásjár Pútins – flestir fallnir í orrustu

Rússneska herdeildin.

Fréttamiðill í Síberíu, Ljudi Baikala, birti 25. febrúar myndskeið á Telegram síðu sinni þar sem rússneskir hermenn báðu Vladimir Pútin Rússlandsforseta um hjálp. Sagt var að hermennirnir væru frá Irktusk í Síberíu.

Nú segja fjölmiðlar að næstum öll herdeildin á myndskeiðinu hafi týnt lífi.

Hermennirnir frá Síberíu segja að á ólöglegan hátt hafi þeir verið settir undir stjórn aðskilnaðarsinna í Donetsk sem njóta stuðnings Rússa. Þeir biðja Pútin um að sjá til þess að það sem þeir kalla „ólögmæt og glæpsamleg fyrirmæli“ verði afturkölluð.

„Vinsamlega hjálpið okkur. Við getum ekki snúið okkur til neins,“ segja grímuklæddir hermennirnir og snúa sér beint til Pútins.

Á óháðu rússnesku vefsíðunni Meduzu segir að hermennirnir hafi fengið fyrirmæli um að ráðast á bæinn Avdiivka án stuðnings, þungra vopna eða undirbúnings.

Þá segja hermennirnir að annar æðsti yfirmaður þeirra hafi umbúðlalaust sagt að aðrir kæmu í þeirra stað yrðu þeir drepnir og þeir færu ekki heim nema særðir.

Á rússnesku vefsíðunni The Insider segir að neyðarkallið til Pútins hafi verið þriðja ákall þeirra en það hafi ekki skilað neinu. Nú á næstum öll herdeildin að hafa fallið – í rússneskri herdeild geta verið 250 til 980 menn.

Ættmenni tveggja hermanna á myndskeiðinu segja að 28. febrúar hafi herdeildin verið send til árása á varnarvirki Úkraínuhers skammt frá hernumdu borginni Donetsk. Eftir það sé sagt að flestra hermannanna sé „saknað“, það er látnir, en aðrir í herdeildinni séu sárir.

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …