Nokkurra klukkustunda umræðum á fundi leiðtogaráðs ESB mánudaginn 30. maí lauk á þann veg að ráðið samþykkti að banna að stærstum hluta innflutning á rússneskri olíu til sambandslandanna fyri lok þessa árs.
Charles Michel, forseti leiðtogaráðsins, kynnti niðurstöðuna skömmu fyrir miðnætti. Taldi hann að hún sýndi eindreginn vilja ESB-ríkjanna til að standa vörð um sameiginleg gildi og hagsmuni.
Fréttaskýrendur segja þetta „hugdjarfasta og afdrifaríkasta“ refsiskref leiðtogaráðs ESB gegn innrás Rússa í Úkraniu.
Hlutdeild Rússa í olíuinnflutningi ESB-ríkjanna hefur numið 27% af heildarinnflutningnum og 40% af gasinnflutningnum. Árlegur orkureikningur Rússa til ESB nemur um 400 milljörðum evra.
Takmörkunin á olíukaupum frá Rússum er hluti sjötta refsipakka ESB vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
Í pakkanum er einnig að finna ákvörðun um að útiloka stærsta banka Rússlands, Sberbank, frá alþjóðlega greiðslukerfinu, SWIFT, auk þess sem einstaklingar grunaðir um aðild að stríðsglæpum í Úkraínu eru settir á svartan lista ásamt Kirill patríarka, leiðtoga rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kynnti tillög um bann við olíukaupum frá Rússum fyrir næstum fjórum vikum. Þá lagði hún til að stig af stigi yrði kaupunum alveg hætt fyrir árslok, hvort heldur olían kæmi sjóleiðis frá Rússlandi eða í landleiðslu.
Hugmyndir framkvæmdastjórnarinnar fengu dræmar undirtektir hjá nokkrum ESB-þjóðum, Ungverjar, Slóvakar, Tékkar og Búlgarar vildu að við framkvæmd bannsins yrði tekið tillit til sérstakra aðstæðna þeirra svo að þeir gætu lagað hreinsistöðvar sínar að breyttum aðstæðum og mildað efnahagsleg áhrif breytinganna.
Refsiaðgerðir á vegum ESB eru reistar á samþykki allra 27 ESB-ríkjanna.
Að loknum stífum samningaviðræðum var ákveðið að hrófla ekki alfarið að sinni við olíukaupum ef olían berst kaupanda eftir landleiðslu.
Um tveir þriðju af rússneskri olíu er flutt með skipum til ESB-kaupenda en þriðjungur fer um Druzhba-leiðsluna sem flytur hráolíu beint til hreinsistöðva í Póllandi, Ungverjalandi, Slóvakíu, Tékklandi og Þýskalandi. Stöðvarnar eru sérhannaðar til að hreinsa rússneska olíu og þarf að laga þær að olíu frá öðrum löndum.
Von der Leyen sagði að í árslok beindist innflutningsbannið að 90% rússneskrar olíu þar sem Pólverjar og Þjóðverjar hefðu skuldbundið sig til að loka eins fljótt og tæknilega er unnt fyrir Druzhba-tengingar til landa sinna.
Ákveðið verður síðar hvenær lokað verður fyrir síðustu 10% olíuinnflutningsins. Að þessi glufa haldist opin þjónar einkum hagsmunum Viktors Orbáns, forsætisráðherra Ungverjalands, sem gerði afdráttarlausa kröfu um sérlausn fyrir sig. Hann sagði það jafngilda kjarnorkusprengju á Ungverja yrðu þeir sviptir aðgangi að olíuleiðslunni, gætu þeir nú sofið rólegir. Kröfur Orbáns sköpuðu svigrúm fyrir aðra notendur Druzhba-leiðslunnar.
Jarðeldsneyti er helsta tekjulind Kremlverja og gerir sala þess þeim kleift að fjármagna hernað þeirra í Úkraínu. ESB-ríkin eru helstu kaupendur þessa eldsneytis. Áður en innrás Rússa hófst var meðal innflutningur þeirra á dag um 2,2 milljón tunnur af hráolíu fyrir utan 1,2 milljón tunnur af hreinsuðum olíuvörum.
Rannsóknastofnunin Centre for Research on Energy and Clean Air (CREA) telur að frá því að rússneska innrásin hófst 24. febrúar 2022 hafi ESB-ríki greitt um 30 milljarða evra fyrir rússneska olíu.
ESB-ríkin beina nú olíuviðskiptum sínum til annarra ríkja og beinist athyglin að Noregi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Líbíu, Nígeríu, Kazakhstan, Írak og Sádi-Arabíu.
