
Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins (NATO) hefst í Varsjá, höfuðborg Póllands, í dag, föstudaginn 8. júlí, með þátttöku ríkisoddvita 39 ríkja, þar af 28 frá NATO-ríkjunum.
Um 6.000 lögreglumenn gæta öryggis fundarmanna en skipuleggjendur bókuðu 4.000 hótelherbergi vegna fundarins og 2.000 fjölmiðlamenn hafa verið skráðir í fréttamiðstöðinni vegna hans.
Andrzej Duda, forseti Póllands, ávarpaði fréttamenn fimmtudaginn 7. júlí. Hann fagnaði því að á fundinum yrði ákveðið að koma fjórum herfylkjum undir merkjum NATO fyrir í Eistlandi, Lettlandi, Litháen og Póllandi.
Hann sagði að ákvörðunin fæli í sér að um „fasta viðveru“ liðs á vegum NATO yrði að ræða þótt ríki skiptust á að senda liðsmenn til að manna stöðvar herfylkjanna. Hann vék einnig að því að innan tíðar yrði hluti af eldflaugavarnarkerfi NATO tekinn í notkun í Póllandi. Bandarískir hermenn mundu gæta öryggis stöðvarinnar og þar með kæmi föst viðvera Bandaríkjamanna í Póllandi til sögunnar.
Duda vék að því að Rússar hefðu á sínum tíma sagt að nýjar herstöðvar brytu gegn samkomulagi NATO og Rússa frá 1997, hins vegar vissu „allir“ að Rússar hefðu haft það samkomulag að engu með árás á Úkraínu.
„Rússar viðruðu heimsveldisdrauma sína og ákváðu að láta þá rætast. Við getum ekki liðið Rússum að brjóta alþjóðalög. Friður ríkir séu þau virt. Við höfum hins vegar rétt til að grípa til gagnaðgerða séu þau brotin,“ sagði hann.
Forsetinn gerði lítið úr ótta við að Þjóðverjar drægju lappirnar vegna áforma NATO um að efla varnir i austurhluta Evrópu. Stafar hann af því að jafnaðarmaðurinn Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þjóðverja, gagnrýndi nýlega heræfingar NATO í Póllandi og sagði þær „stríðsæsingar“.
Duda benti á að Þjóðverjar mönnuðu herfylkið í Litháen og sagði að líta bæri á orð þýska utanríkisráðherrans sem hluta af „leik innan [þýsku] samsteypustjórnarinnar“ í aðdraganda þýsku þingkosninganna á næsta ári. Hann taldi að Brexit-atkvæðagreiðslan í Bretlandi mundi verða til þess að Bretar legðu meiri áherslu en áður á þátttöku sína í NATO – minni áhrif þeirra innan ESB leiddi til þess að Bretar reyndu að „auka áhrif sín á öðrum vettvangi“.
Beata Szydlo, forsætisráðherra Póllands, flutti einnig ávarp fimmtudaginn 7. júlí og sagði að NATO-leiðtogafundurinn væri „mikilvægasti atburður í sögu Póllands frá því að þjóðin varð sjálfstæð að nýju“ eftir fall kommúnistastjórnarinnar árið 1989.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sitja fundinn fyrir Íslands hönd.