
Varðbergsfundurinn með Bjarna Benediktssyni varð frétta- og leiðaraefni í Morgunblaðinu eins og sjá má hér fyrir neðan.
Frétt á mbl.is fimmtudaginn 9. febrúar:
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði á fundi Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, í Norræna húsinu í hádeginu að Ísland stæði á þeim tímamótum að í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins væri til staðar þjóðaröryggisstefna og þjóðaröryggisráð.
„Við erum í fyrsta skipti með tæki í höndunum þar sem horft er með heildstæðum hætti til öryggismála og þær margbreytilegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Þá eru uppi að einhverju leyti óvissutímar sem fela í sér bæði tækifæri og áskorun,“ sagði Bjarni á fundinum.
Stofnun sérstaks Þjóðaröryggisráðs er m.a. tilkomið vegna ógna sem varðar þjóðaröryggi landsins og kalli á skilvirka samhæfingu hlutaðeigandi ráðuneyta og stofnanna að sögn Bjarna. Jafnframt sagði Bjarni breiða samstöðu vera um stofnun Þjóðaröryggisráðsins.
„Ísland mun áfram byggja þjóðaröryggi á þeim traustu stoðum sem tryggt hafa öryggi landsins alla lýðveldissöguna, þ.e. á varnarsamningnum við Bandaríkin og veru Íslands í NATO,“ sagði Bjarni og fór yfir áherslur Íslands í vestrænni samvinnu, en þar gegnir NATO lykilhlutverki.
Bjarni fór yfir stöðuna í alþjóðamálum og ræddi m.a. framgöngu Rússa í Úkraínu og aukna áherslu NATO í austur Evrópu. Einnig ræddi Bjarni mat ríkislögreglustjóra um hættustig á hryðjuverkum á Íslandi en það er óbreytt frá árinu 2015 og er metið í meðalagi, það er ekki er hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum, vegna ástands innanlands eða ástands í alþjóðamálum.
Bjarni ræddi einnig stöðu Brexit og lagði áherslu á að ná góðum samningi við Bretland og sagði það mikilvægan markað fyrir Íslands. Sagði hann ljóst að Bretar ætluðu úr Evrópusambandinu og því væri mikilvægt fyrir Íslendinga að ná góðum nýjum samningi við þá.
Þá kom hann inn á stöðuna í Bandaríkjunum í kjölfar forsetakosninganna. Sagðist hann ekki óttast spár mestu svartsýnismanna um Trump og telur hann að of mikið púður hafi farið í að hafa áhyggjur af stefnu hans. Lagði Bjarni áherslu á að horfa til málefna hans frekar en moldviðrisins sem hefur komið upp í kringum hann og að það væri mikilvægt fyrir Íslendinga að tryggja góð samskipti við Bandaríkin. Vísaði hann meðal annars í varnarsamning þjóðanna.
Frétt í Morgunblaðinu 10. febrúar 2017
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is
„Þjóðaröryggisráð verður nokkuð frábrugðið því sem almennt tíðkast í löndunum í kringum okkur,“ sagði forsætisráðherra Íslands, Bjarni Benediktsson, á fundi Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, í Norræna húsinu í gær og vísaði í máli sínu til þess að Ísland sé herlaust land.
Ísland stendur á tímamótum að sögn Bjarna, en í fyrsta sinn frá lýðveldisstofnun er til staðar bæði þjóðaröryggisstefna fyrir landið og starfandi þjóðaröryggisráð.
„Við erum í fyrsta sinn með tæki í höndunum þar sem horft er með heildstæðum hætti til öryggismála og þeirra margbreytilegu áskorana sem við stöndum frammi fyrir. Uppi er ákveðinn óvissutími í alþjóðamálum sem felur í sér bæði tækifæri og áskorun,“ sagði hann.
Þjóðaröryggisráð mun að sögn Bjarna m.a. tryggja virka framfylgd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland eins og hún er á hverjum tíma og tryggja að stefnan sé endurskoðuð reglulega.
„Stofnun sérstaks þjóðaröryggisráðs er m.a. tilkomin vegna ógna sem varða þjóðaröryggi landsins og kallar á skilvirka samhæfingu hlutaðeigandi ráðuneyta og stofnana,“ sagði Bjarni í erindi sínu, en þjóðaröryggisráð á að tryggja viðeigandi samráð milli stjórnsýsluaðila innbyrðis og við Alþingi.
NATO og Bandaríkin
Ísland mun áfram byggja þjóðaröryggi sitt á traustum stoðum, sem tryggt hafa öryggi landsins alla lýðveldissöguna, sagði Bjarni og vísaði þar til varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna og aðildar Íslands að Altantshafsbandalaginu (NATO).
„Vestræn samvinna í varnarmálum verður áfram að meginstefnu til á vettvangi NATO,“ sagði Bjarni, en hann ræddi jafnframt nýjar áskoranir varnarbandalagsins í kjölfar framgöngu Rússlands í Úkraínu.
Þá sagði hann mikilvægt að tryggja áfram góð samskipti og samstarf Íslands og Bandaríkjanna. Kosning kaupsýslumannsins Donalds Trumps í embætti forseta Bandaríkjanna hafi vissulega komið á óvart enda fáir spáð sigri hans sagði Bjarni, en benti jafnframt á ekki væri ástæða til að trúa á svartsýnustu spár gagnrýnenda forsetans. Aðferðir hans væru vissulega óhefðbundnar enda mótaður í öðru umhverfi en stjórnmálum. Horfa þurfi á stefnumál hans og tryggja góð samskipti ríkjanna.
Bretland mikilvægur markaður
„Bretland er á leið út úr Evrópusambandinu og ætlar að verða leiðandi í fríverslun,“ sagði Bjarni og minntist á að Bretland væri mikilvægur markaður fyrir Ísland. Hátt í 18 prósent fiskafurða Íslands fari á markaði í Bretlandi.
„Við verðum að tryggja góð samskipti og góða samninga við Bretland í kjölfar útgöngu Bretlands úr ESB.“
Leiðari Morgunblaðsins föstudaginn 10. febrúar 2017:
Kúrsinn réttur af
Forsætisráðherra hélt í gær ræðu á fundi Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál. Ráðherrann sagði að Ísland stæði á nokkrum tímamótum í…
Forsætisráðherra hélt í gær ræðu á fundi Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál. Ráðherrann sagði að Ísland stæði á nokkrum tímamótum í öryggismálum og vitnaði þá til þess að stofnað hefði verið til sérstaks þjóðaröryggisráðs:
»Við erum í fyrsta skipti með tæki í höndunum þar sem horft er með heildstæðum hætti til öryggismála og þeirra margbreytilegu áskorana sem við stöndum frammi fyrir.« Bjarni sagði að til þessa ráðs hefði verið stofnað vegna ógna við öryggi landsins. Þær kalli á skilvirka samhæfingu hlutaðeigandi ráðuneyta og stofnana. Ráðherrann ítrekaði þá stefnu að byggt væri á þeim þáttum sem fram að þessu hafa verið hornsteinn í öryggisumgjörð landsins, »varnarsamningnum við Bandaríkin og veru Íslands í NATO«.
Bjarni ræddi einnig stöðu mála í kjölfar ákvörðunar Breta um að koma sér út úr ESB og að í framhaldinu yrði að tryggja góða viðskiptasamninga við Bretland, enda mjög mikilvægur markaður fyrir Ísland.
Alþjóðlegir »popúlistar« í fjölmiðlum og á vinstri kanti stjórnmála hafa farið mikinn fyrstu tvær starfsvikur nýs forseta Bandaríkjanna! Ístöðulausir stjórnmálamenn hér á landi, sem að öðru jöfnu hafa ekki haft horn í síðu Bandaríkjanna, hafa hrifist með í »popúlismanum« og sumir hlaupið illa á sig.
Því voru ummæli forsætisráðherra á fundinum eftirtektarverð. Í fréttum var orðum hans lýst þannig: »Sagðist hann ekki óttast spár mestu svartsýnismanna um Trump og telur hann að of mikið púður hafi farið í að hafa áhyggjur af stefnu hans. Lagði Bjarni áherslu á að horfa til málefna hans frekar en moldviðrisins sem hefur komið upp í kringum hann og að það væri mikilvægt fyrir Íslendinga að tryggja góð samskipti við Bandaríkin. Vísaði hann meðal annars í varnarsamning þjóðanna.«
Nú vill svo til að allmargir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar voru með flaustursleg og vanhugsuð viðbrögð og töldu sig þurfa að hafa skjól í hávaðanum sem var magnaður upp. Hin varfærnislega ofanígjöf forsætisráðherrans var því sanngjörn og getur vonandi að nokkru bætt úr þeim skaða sem orðinn var.