Home / Fréttir / Leggja hart að Xi að koma vitinu fyrir Púrtin

Leggja hart að Xi að koma vitinu fyrir Púrtin

Emmanuel Macron. Xi Jinping og Ursula von der Leyen í Peking 6. apríl 2023.

Ursula von der Leyen ítrekaði fimmtudaginn 6. apríl eftir fund með Xi Jinping Kínaforseta í Peking að það mundi valda „umtalsverðu tjóni“ í samskiptum Kína og ESB ef Kínverjar létu Rússum og té hergögn.

„Ég vil taka af öll tvímæli um þetta, að vopna árásaraðila er ótvírætt brot á alþjóðalögum. Þetta er árásaraðili og það ætti aldrei að afhenda honum vopn. Og þetta mundi vissulega valda umtalsverðu tjóni í samskiptum ESB og Kína,“ sagði von der Leyen við blaðamenn í Peking.

Von der Leyen átti tvo fundi með Xi Jinping fimmtudaginn 6. apríl. Emmanuel Macron Frakklandsforseti sat einnig annan fundinn en á hinum fundinum hittust þau Xi og von der Leyen tvö ein. Þá hitti hún einnig Li Qiang, forsætisráðherra Kína.

„Ég lagði á það áherslu í samtölum okkar í dag að ég styð friðaráætlun Zelenskíjs, forseta [Úkraína], heilshugar. Ég fagnaði einnig sumum meginsjónarmiðum sem Kínverjar hafa kynnt. Þar ber sérstaklega að nefna kjarnorkuöryggi og áhættuminnkun og yfirlýsingu Kínverja um að ekki beri að hóta með kjarnavopnum eða að þeim verði beitt,“ sagði hún eftir fundina.

Hún hvatti einnig kínverska ráðamenn til að beita áhrifum sínum til að fá Vladimir Pútin Rússlandsforseta ofan af þeirri nýlegu hótun sinni að koma vígvallar-kjarnavopnum fyrir í Belarús.

„Kína á fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og ber því mikla ábyrgð þegar að því kemur að beita áhrifum sínum í áratugalöngu vináttusambandi við Rússa. Og við göngum að því sem vísu að Kínverjar muni í raun axla ábyrgð og tala mjög skýrt,“ sagði hún.

Von der Leyen hvatti Xi einnig til að ákveða fundartíma með Zelenskíj. „Mér var sagt símleiðis að Zelenskíj forseti hefði opinberlega beðið um slíkan fund. Það var því áhugavert að heyra að Xi forseti hefði ítrekað vilja sinn til viðræðna við réttar aðstæður og tíma. Ég tel að þetta sé jákvæður þáttur.“

Undir lok mars sagði Zelenskíj við AP-fréttastofuna að hann vildi ræða við kínverska leiðtogann „vegna þess að ég hafði samband við hann áður en allsherjarstríðið hófst en í allt þetta ár, meira en eitt ár, hef ég ekki gert það“. Hann lét einnig í ljós vilja til að taka á móti Xi í Kyív.

Áður en von der Leyen efndi til blaðamannafundar síns fimmtudaginn 6. apríl höfðu Macron og Xi hvatt til þess að friðarviðræður hæfust sem fyrst. Þeir ítrekuðu að ekki mætti beita kjarnavopnum og forðast bæri eins og frekast væri unnt að ráðast á almenna borgara, borgaraleg mannvirki, þar á meðal kjarnorkuver.

„Rússneska innrásin í Úkraínu hefur grafið undan stöðugleika. Ég veit að ég get treyst á yður til að koma vitinu fyrir Rússa á ný og fá alla að nýju að samningaborðinu,“ sagði Macron við viðmælanda sinn.

Hvorugur forsetanna minntist á Tævan þótt Kínastjórn hefði sent herskip í átt að eyjunni þennan sama fimmtudag. Gerðist það eftir að Tsai Ing-wen, forseti Tævans, hitti Kevin McCarthy, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í Los Angeles.

Kínverskir ráðamenn hafa heitið því að Tævan verði að nýju hluti Kína og hafa hert á þeim málflutningi undanfarið. Gætir vaxandi ótta við að þeir beiti hervaldi til að ná þessu markmiði sínu.

Í samtali við Euronews-fréttastofuna sagði von der Leyen að á fundum hennar með kínverskum ráðamönnum hefði verið rætt um Tævan og mikilvægi stöðugleika á hafsvæðinu milli Tævans og meginlands Kína.

Í fyrra voru Kínverjar þriðju stærstu kaupendur varnings frá ESB-löndunum og stærstu seljendur til ESB-þjóða, nema viðskiptin 2.3 milljörðum evra dag hvern. Viðskiptahalli ESB gagnvart Kína hefur þrefaldast síðasta áratug og nam næstum 400 milljörðum evra í fyrra.

„Hér er um ósjálfbæra þróun að ræða og það verður að taka á þeim kerfisvandamálum sem búa að baki henni,“ sagði von der Leyen.

Til stendur meðal annars af hálfu ESB að greina hvar evrópsk fyrirtæki sæta ósanngjörnum aðferðum Kínverja sem hindra eða trufla aðgang fyrirtækjanna að kínverska markaðnum. Hún nefndi hertar kröfur um að upplýsa um atriði sem snerta tæknilega þætti, hömlulausar kröfur um upplýsingar og virðingarleysi fyrir hugverkaréttindum. Á þennan hátt byggju evrópsk fyrirtæki við verri markaðsaðstæður en kínversk fyrirtæki á Evrópumarkaði.

Á vegum ESB yrði allt gert til að tryggja eðlilegan markaðsaðgang og jafna samkeppnisstöðu. Í þessu skyni yrði ESB að ræða við kínversk yfirvöld í von um að minnka mætti áhættu fyrirtækja með viðræðum stjórnarerindreka.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …