„Fæling: „varnarstefna, einkum reist á kjarnorkuvopnum. Eftir síðari heimsstyrjöldina kom fæling í veg fyrir átök milli fylkinganna tveggja.“ Larousse [franska orðabókin] bendir á ítarefni um fælingu í sagnfræðibókum. Orðið er dálítið úrelt en blómatími þess var í kalda stríðinu, Kúbudeilunni og á tíma meðaldrægu eldflauganna í Evrópu,“ með þessum orðum hefst grein eftir Sylvie Kauffmann, blaðamann á franska blaðinu Le Monde, laugardaginn 20. júní.
Hér hafa verið kynntar greinar eftir Bandaríkjamann og Þjóðverja um þróun öryggismála í Evrópu og breytingar á afstöðu Rússa til kjarnorkuvopna. Að þessu sinni birtist lausleg þýðing á grein eftir Sylvie Kauffmann, blaðamann á franska blaðinu Le Monde. Hún var um tíma (2010 til 2011) ritstjóri blaðsins, fyrsta konan til þess að gegna því starfi. Þegar kalda stríðinu lauk var hún fréttaritari Le Monde í Moskvu. Greinin birtist í blaðinu sem dagsett er sunnudaginn 21. júní.
Sylvie Kauffmann segir:
Takið fram sögubækurnar! Fæling er komin til sögunnar að nýju. Ekki ber að líta þannig á að kjarnorkuherafli vesturs eða austurs hafi verið aflagður í millitíðinni, langt því frá – þrátt fyrir að Barack Obama hafi fengið friðarverðlaun Nóbels árið 2009 fyrir að hafa talað af mælsku um draumaheim án kjarnorkuvopna – er stöðugt unnið að endurnýjun þeirra. Annað hefur einfaldlega ekki verið á dagskrá. Til allrar hamingju má alltaf treysta á að Vladimir Pútín hressi upp á minni okkar; með einfaldri setningu hinn 16. júní, frammi fyrir röðum borðalagðra foringja, lagði Rússlandsforseti kjarnorkufælingu að nýju inn í umræðuna.
„Fyrir lok líðandi árs,“ lofaði Pútín „verður rúmlega 40 nýjum langdrægum eldflaugum bætt við kjarnorkuherafla Rússa. Þessar flaugar geta brotið öll eldflaugavarnakerfi á bak aftur, jafnvel hin hæstþróuðu.“ Þess ber að geta að þremur dögum fyrr sagði The New York Times frá því að bandaríska varnarmálaráðuneytið hefði uppi áform að koma fyrir þungavopnum – skriðdrekum, herflutningabílum, stórskotavopnum – í Eystrasaltsríkjunum og nokkrum ríkjum Mið-Evrópu. Með slíkum hergagnageymslum er auðveldað að flytja herlið á vettvang með hraði, 5.000 hermenn sé þess þörf, þeir yrðu þannig búnir til orrustu á 24 tímum án þess að þurfa að bíða eftir búnaði sínum. Frá því að fréttin birtist hafa stjórnvöld í Litháen og Póllandi staðfest að um þetta hafi verið rætt við Bandaríkjastjórn; áætlunina á að leggja fyrir fund varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna sem verður dagana 24. og 25. júní.
Startholurnar
Er unnt að leggja að jöfnu geymda skriðdreka og flutningabíla fyrir 5.000 manns og 40 langdrægar eldflaugar (ICBM svo að notuð sé ensk skammstöfun)? Að sjálfsögðu ekki: þetta er ósambærilegt. Tímasetningin var hins vegar frábær, Kremlarbóndinn hitti í mark með því að minnast á kjarnorkuvopnin, hann lét annars vegar eins og Rússland væri risaveldi og hins vegar að Rússar væru í startholunum, þeir gætu gripið til 40 kjarnaodda á sama tíma og Bandaríkjaher hefði ekki annað að bjóða en skotturna Abrams-skriðdreka.
Það þurfti ekki meira til svo að í þýska vikuritinu Der Spiegel birtist fyrirsögnin: „Bráðlega kunna bandarískir kjarnaoddar að verða fluttir aftur til Evrópu.“ Síðan var bætt við glærusýningu um „Nýja vígbúnaðarkapphlaupið“ og menn geta tekið til við að gera sér í hugarlund endurgerð friðarhreyfinganna og mótmæla þeirra sem aldrei dregst að efna til handan Rínar [í Þýskalandi] vegna þessarar nýju innrásar oddanna.
Í raun eru hinar 40 ICBM-flaugar ekki nýjar. Þær eru hluti af víðtækri áætlun um endurnýjun rússneska kjarnorkuheraflans sem staðið hefur í fimmtán ár; það hefur meira að segja ekki tekist að halda þessa áætlun. Camille Grand, forstjóri Fondation pour la recherche stratégique (Rannsóknastofnunar hermála), segir að yfirlýsing Pútíns sé „í senn klókindaleg og uggvænleg: það er klókindalegt að tengja þetta tvennt, láta eins og yfirlýsing Rússa sé svar við ákvörðun Bandaríkjamanna um flutning og geymslu þungavopna, uggvænleg vegna þess að hún siglir í kjölfar ýmissa ummæla Moskvumanna sem fallið hafa um kjarnorkuógnina eftir innlimun Krímskaga“.
Bandaríkjamanna bíður hið viðkvæma verkefni að skapa öryggiskennd hjá NATO-bandamönnum sínum í austri án þess einmitt að ýta undir vígbúnaðarkapphlaup. Þetta snertir einkum Eystrasaltsþjóðirnar og Pólverja, þjóðirnar sem áttu sín óskemmtilegustu ár á 20. öldinni í nánum samskiptum við Rússa og óttast að Úkraínu-deilan kalli eitthvað svipað yfir sig á 21. öldinni. Það sem máli skiptir er að draga sem mesta athygli að æfingum sem efnt er til í austurhluta Evrópu, að aka bandarískum skriðdrekum um borgir og bæi í stað þess að senda þá með járnbrautarlestum, að mælast til þess að F-16 orrustuþotum sé flogið sem lægst. Á hinn bóginn er ekki á þessari stundu rætt um að opna herstöðvar eða senda fastalið á vettvang: jafnvel þótt meira en 15.000 hermenn frá 22 NATO-ríkjum, 50 herskip og kafbátar auk um fimmtíu flugvéla taki í júní þátt í æfingunni „Bandmannaskjöldur“ er mannaflinn enn langt frá því að vera hinn sami og í lok kalda stríðsins þegar 330.000 bandarískir hermenn áttu bækistöðvar í Evrópu.
Í samtali við Corriere della Sera á Ítalíu sagði Pútín blessunarlega að maður þyrfti að vera „bilaður til að ímynda sér að Rússar gætu ráðist á aðildarríki NATO“. Bandaríkjamenn fara sér hægt við að auka umsvif sín í Evrópu. Þeir senda þangað hermenn tímabundið og reyna að hvetja bandamenn sína til að láta meira að sér kveða í stað þess að skera niður útgjöld til varnarmála. Í því efni eiga þeir enn eftir að verða fyrir vonbrigðum: engum í Evrópu er mikið hitamál að bregða bröndum gegn Rússum.
Megi taka mark á niðurstöðum rannsóknar sem Pew Research Center gerði í átta NATO-ríkjum og birtar voru hinn 10. júní er aðeins meirihluti fyrir því í Kanada og Bandaríkjunum að herir landa þeirra verði sendir til varnar NATO-aðildarríki undir árás Rússa. Meirihluti manna í Þýskalandi, á Ítalíu og í Frakklandi telur hins vegar að ekki eigi að senda heri landa sinna af stað. Almennt vilja Evrópumenn frekar veita Úkraínumönnum efnahagsaðstoð en senda þeim vopn. Um eitt eru þeir allir sammála: ráðist Rússar á eitt NATO-ríkjanna komi í hlut Bandaríkjamanna að verja það. Þeim finnst eins og Pútín að „bandamannaskjöldurinn“ sé í raun bandarískur.