Home / Fréttir / Lavrov segir Tillerson áfram fúsan til að ræða við sig

Lavrov segir Tillerson áfram fúsan til að ræða við sig

 

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, og Rex Tillerson, utanríkisráherra Bandaríkjanna.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, og Rex Tillerson, utanríkisráherra Bandaríkjanna.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði sunnudaginn 6. ágúst að hann teldi Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fúsan til að ræða áfram við Rússa um flókin málefni þrátt fyrir spennu í tvíhliða samskiptum ríkjanna og þrátt fyrir að Bandaríkjaþing hefði nýlega samþykkt hertar refsiaðgerðir gegn Rússneskum stjórnvöldum.

„Við urðum þess varir að bandarískir starfsbræður okkar eru fúsir til að halda áfram skoðanaskiptum við okkur. Ég held að enginn annar kostur sé í boði,“ sagði Lavrov við fréttamenn í Manilla á Filipseyjum þar sem hann átti einkafund með Rex Tillerson í tengslum við utanríkisráðherrafund ASEAN-ríkjanna – það er ríkjanna í Samtökum ríkja Suðaustur-Asíu.

Lavrov sagði að Kurt Volker, sérlegur fulltrúi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um málefni Úkraínu yrði innan skamms í fyrsta sinn í Moiskvu. Þar myndi hann ræða við Vladislav Surkov, sérlegan fulltrúa rússneskra stjórnvalda vegna deilunnar um Úkraínu. Volker var skipaður í stöðu sína í júlí 2017 var fyrir fáeinum vikum í fyrsta sinn í austurhluta Úkraínu.

Rex Tillerson yfirgaf fundarstað sinn og Lavrovs án þess að ræða við fréttamenn.

Donald Trump staðfesti miðvikudaginn 2. ágúst lög um hertar refsiaðgerðir gegn Rússum sem þingmenn beggja deilda Bandaríkjaþings samþykktu með yfirgnæfandi meirihluta. Dmitríj Medvedev, forsætisráðherra Rússa, sagði um lögin að þau jafngiltu „allsherjar viðskiptastríði“ gegn landi sínu.

Trump og Tillerson lögðust gegn samþykkt lagafrumvarpsins um hertar refsiaðgerðir þar sem í texta þess væri að finna ákvæði sem settu forsetanum of miklar skorður vildi hann draga úr refsiaðgerðunum.

Trump staðfesti lögin þótt hann segði þau „meingölluð“.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …